Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að kosningabaráttan nú í Reykjavík hafi verið ljótur leikur. Þetta er hárrétt hjá Ingibjörgu, en þó ekki af þeirri ástæðu sem hún heldur. Það var ekki ljótur leikur að benda á að sumir frambjóðendur lumuðu á tiltekinni reynslu úr viðskiptalífinu. Það kom kjósendum við, enda hefur R-listinn staðfest það með því að ljá máls á því að einn frambjóðandinn muni ekki gegna trúnaðarstöðum fyrr en mál hans hafa verið krufin. Og kjósendur staðfestu það með miklum útstrikunum á tveimur frambjóðendum, Helga Hjörvari og Hrannari Arnarssyni.
En kosningabaráttan var sem sagt ljótur leikur þótt af annarri ástæðu væri en Ingibjörg heldur. Hann var ljótur því hann gekk að mestu út á að lofa auknum umsvifum og útgjöldum hins opinbera, með tilheyrandi þrengingum fyrir einstaklinginn. Og hann var ljótur af því að sá sem leikið var með, einstaklingurinn, átti enga möguleika. Hann hefði borgað brúsann án tillits til úrslitanna, spurningin var aðeins hversu þungar greiðslurnar yrðu. Þótt R-listinn hafi ekki lofað að allt yrði ókeypis eins og Húmoristaflokkurinn, er hætt við að greiðslurnar verði býsna þungar.
Stjórnarandstæðingar á Alþingi hljóta að klóra sér í kollinum eftir úrslit sveitarstjórnarkosninganna. Úrslitin sýna það sama og skoðanakannanir um fylgi við flokkana á landsvísu hafa gert að undanförnu: Stjórnarandstaðan á lítið erindi við landsmenn þrátt fyrir að hún stökkvi á hvert málið á fætur öðru sem skoðanakannanir sýna að stuðningur er við. Sameiginleg framboð stjórnarandstöðuflokkanna fengu víða minni stuðning í kosningunum en flokkarnir fengu til samans í síðustu kosningum. Og í Hafnarfirði þar sem einna mest hefur verið talað um sameiningu brotlenti framboð Alþýðuflokksins. Úrslitin í Hafnarfirði geta bent til þess að Alþýðuflokkurinn eigi vart afturkvæmt í íslensk stjórnmál eftir alla sameiningarumræðuna. Forystumenn flokksins hafa lagt hann að veði fyrir sameiningu og verði ekki af henni mun hann eiga afar erfitt uppdráttar. Núverandi forysta flokksins hefur brennt allar brýr að baki sér með raupi sínu um sameininguna. Það má Jón Baldvin Hannibalsson eiga að hann hélt þó alltaf þeim möguleika opnum að Alþýðuflokkurinn starfaði áfram.