Helgarsprokið 10. maí 1998

130. tbl. 2. árg.

Á einni af nýmjólkurfernunum er að finna svohljóðandi orðsendingu „Látum okkur líða vel! Njótum fjölskyldu og vina. Nýtum eigin hæfileika og sköpunargleði í leik og starfi. Verum bjartsýn og höldum sjálfsvirðingunni. Gætum hófs í mat og drykk.“ Undir þetta rita heilbrigðisráðuneyti og landlæknisembætti. Það leiðir af sjálfu sér að orðsendingar af þessu tagi eru ekki til nema til sé fólk sem trúir því að það sé nauðsynlegt að skerða einstaklingsfrelsið með umfangsmiklu ríkisvaldi svo uppfræða megi almúgann um svo stórkostleg „sannindi“ á borð við þau sem vitnað er til hér að ofan. Þetta fólk trúir því að ef ekki nyti við heilbrigðisráðuneytis og landlæknisembættis þá væru engin fjölskyldu- og vinatengsl, ekkert okkar myndi nýta eigin hæfileika og sköpunargleði. Við værum svartsýn, bölsýn og án nokkurrar sjálfsvirðingar og þjáðumst ennfremur öll af „átröskun“. Burtséð frá því (og þeim „1984“ anda sem hér svífur yfir vötnum) þá er vert að veita einni setningu í orðsendingunni (skipuninni?) sérstaka athygli.

Setningin „Nýtum eigin hæfileika og sköpunargleði í leik og starfi.“ hlýtur nefnilega að merkja að við eigum að nýta eigin hæfileika og sköpunargleði umfram hæfileika og sköpunargleði annarra. Nú er það svo að það er eðli hins frjálsa markaðar að þátttakendum vegnar því betur, þeim mun meira sem þeim tekst að nýta sér hæfileika og sköpunargleði annarra. Þetta kallast með öðrum orðum verkaskipting (division of labour) og hefur gefist mun betur en það fyrirkomulag sem er á mjólkurframleiðslu og dreifingu hér á landi, svo ekki sé minnst á heilbrigðisiðnaðinn. Þess háttar nýtingu kalla hins vegar stjórnlyndir mjólkurfernupennar og ritstjórar þeirra „mötun“ eða „áreiti“ og telja það til hinna verstu lasta.

Orðsendingin sem gerð er að umræðuefni hér að ofan mætti verða svohljóðandi: „Njótum fjölskyldu og vina ef okkur sýnist svo. Nýtum eigin hæfileika og sköpunargleði í starfi en þó umfram allt hæfileika og sköpunargleði annarra. Verum bjartsýn þegar það á við, svartsýn þegar það á við en þó umfram allt raunsæ og höldum sjálfsvirðingunni í samræmi við það sem tilefni er til hverju sinni. Njótum matar og drykkjar á hvern þann veg sem við helst kjósum. Gjöldum varhug við ríkisvaldi. Drekkum afurðir frá Sól h/f, Vífilfelli h/f og öðrum þeim ágætu framleiðendum sem eru þátttakendur á frjálsum markaði.“