Rithöfundasamband Íslands hefur ályktað og þar segir m.a. eftirfarandi: „Brýnt er að ekki séu gerðar aðrar takmarkanir á tjáningarfrelsinu en þær sem nauðsynlegar eru í lýðræðissamfélagi og slík nauðsyn teljist því aðeins fyrir hendi að um sé að ræða knýjandi samfélagslega nauðsyn.“
Ályktun þessi mun vera hugsuð sem málsvörn fyrir hinn svonefnda Ingólf Margeirsson sem í félagi við Esra sendi ættingjum látins sjúklings Esra jólakveðjur í bókarformi um síðustu jól. Í bókinni mun nokkuð rætt um veikindi sjúklingsins en sjúklingar ganga að trúnaði lækna vísum. Rithöfundasamband Íslands virðist því telja það „knýjandi samfélagslega nauðsyn“ að læknar geti brotið þá samninga sem þeir hafa gert við sjúklinga sína um trúnað.
Samtök um þjóðareign halda námskeið um siðferði í stjórnmálum um helgina. Það er hárrétt hjá aðstandendum félagsins að þeir hafi þörf á slíkri fræðslu. Fundarstjóri verður Ágúst Einarsson sem bauð sig fram fyrir Þjóðvaka í síðustu kosningum vegna siðleysis í Alþýðuflokknum. „En allir komu þeir aftur…“
Það er líka athyglisvert að Samtök um þjóðareymd hafa gefist upp á að funda um helsta baráttumál sitt sem var hærri skattar á þá sem starfa að sjávarútvegi og fiskvinnslu.