DV á við tvö vandamál að glíma þessa dagana og má ekki á milli sjá hvort er þess fremur valdandi að blaðið er hefur glatað fyrri stöðu sinni sem trúverðugt gagnrýnið þjóðfélagsafl. Annar ritstjóra DV er þingmaður og hinn er orðljótur með afbrigðum. Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerir síðarnefnda vandamálið að efni í grein í Morgunblaðinu í gær. Þar heldur Hannes því fram að Össur Skarphéðinsson hafi átt að fara á Dag en Stefán Jón Hafstein ritstjóri hafi hafnað því. Sennilega hefur þetta verið rétt mat hjá Stefáni enda afleitt fyrir hvaða fjölmiðil sem er að sitja uppi með eftirlitsmann frá stjórnmálaflokki á ritstjórninni. Össur var því settur á DV.
Því er hins vegar ósvarað hvers vegna útgefendur Dags og DV fengu Össur á sitt framfæri og urðu að setja hann á DV (sem Hannes segir gert til að niðurlægja hinn orðljóta Jónas Kristjánsson) úr því að Stefán Jón Hafstein lét ekki bjóða sér hvað sem er. VÞ hefur áður bent á þá tilviljun að Ágúst Einarsson (sem af og til er samflokksmaður Össurar) lagði milljónir í útgáfu Dags á sama tíma og Össur var ráðinn. Samningur Alþýðuflokksins við Frjálsa fjölmiðlun hf. um útgáfu Alþýðublaðsins og lokin á útgáfu blaðsins báru einnig upp á sama tíma. Það er ekki nema von að menn spyrji hvort Alþýðuflokkurinn og Ágúst Einarsson hafi keypt ritstjórastólinn undir Össur. Ef svo er vaknar sú spurning hvort Alþýðuflokkurinn hafi notað útgáfustyrkinn sem hann fær frá ríkinu til þess arna.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði í viðtali á Rás 2 fyrir nokkrum dögum að þeir þingmenn sem kosnir voru fyrir Þjóðvaka í síðustu kosningum væru enn félagar í Þjóðvaka. Þetta kemur á óvart þar sem Ágúst Einarsson sagði fyrir nokkrum mánuðum að hann væri genginn í Alþýðuflokkinn.
Kosningabaráttan harðnar nú í Reykjavík þessa dagana og framboðin reyna að koma sjálfum sér á framfæri. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar kynnt stefnuskrá sína í öllum helstu málum og hann hefur opnað heimasíðu þar sem stefna hans og frambjóðendur eru kynnt. R-listaflokkarnir hafa enn ekki sett upp slíka síðu, ef til vill ekki eins mikið sem rekur á eftir þeim enda hafa þeir beinan aðgang að yfirmönnum helstu fjölmiðla.