Það er alltaf slæmt þegar menn telja sig geta flokkað fólk eftir þjóðerni eða litarhætti. Verst er þó þegar ríkisvaldið er nýtt til þess að mismuna fólki á slíkum forsendum. Einstaklingar sem vilja greina á milli fólks eftir hörundslit þurfa sjálfir að taka kostnaðinn af því á sig. Kaupmaður eða barþjónn sem neitar að eiga viðskipti við fólk með ákveðinn hörundlit tekur kostnaðinn af minni viðskiptum á sig. Þess vegna lágmarkar frjáls markaður slíkt framferði – markaðurinn spyr ekki um litinn á kúnnanum heldur um litinn á seðlunum sem kúnninn er tilbúinn til að láta af hendi.
Þegar ríkið er notað til að mismuna fólki á þessum fáránlegu forsendum geta þeir sem koma því til leiðar velt kostnaðinum yfir á samborgara sína. Forstjóri ríkisfyrirtækis sem ræður menn í laust starf eftir litakorti en ekki hæfileikum tapar ekki á því sjálfur heldur skattgreiðendurnir sem greiða fyrir rekstur fyrirtækisins.
Það verður seint komið alveg í veg fyrir að skilningsleysi og fordómar gagnvart því sem framandi er geri vart við sig. Við getum þó reynt að takmarka það. Besta leiðin er að menn fái að njóta verðleika sinna í frjálsum viðskiptum eintaklinga.