Þriðjudagur 7. apríl 1998

97. tbl. 2. árg.

Í fréttum Ríkissjónvarpsins á sunnudaginn var rætt við Pétur Blöndal þingmann um áhrif bótakerfis hins opinbera á mismunandi fjölskyldur. En Pétur hefur sem kunnugt er lagt fram frumvarp sem stemma á stigu við þeirri mismunun sem bótakerfið hefur í för með sér. Í fréttatímanum voru tekin nokkur dæmi um hvernig hjón með börn geta hagnast á því að skilja. Eitt dæmið var af hjónum með þrjú börn sem gátu aukið ráðastöfunartekjur sínar um rúmar 800 þúsund krónur á ári með því að skilja! Það gera litlar fjórar milljónir á fimm árum.

Árum saman hafa menn bent á þá staðreynd að bótakerfið refsar mönnum fyrir að vinna og ekki síður fyrir að spara. Skuldasöfnun er hins vegar verðlaunuð. Ekki er nokkur vafi á því að verkalýðsforustan (þessi forysta sem er svo slöpp að neyða þarf fólk til að greiða félagsgjöld til verkalýðsfélaganna) er helsti arkitektinn að þessu óréttláta kerfi þótt allir stjórnmálaflokkarnir beri sína ábyrgð. Hugsunin á bak við þetta kerfi er í raun ekkert annað en gamli sósíalisminn þar sem nota á ríkisvaldið til að jafna stöðu manna en á endanum verða sumir jafnari en aðrir. Eini jöfnuðurinn í kerfinu er sá að það er jafnvitlaust og önnur afsprengi sósíalismans.
Það hlýtur að vera eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda, nú þegar hallarekstur ríkissjóðs er að baki um stund, að vinda ofan af þessari jafnaðarmennsku.