Fjármálaráðherra setti á föstudaginn nýja reglugerð um ÁTVR sem felur það í sér, að fyrirtækið hættir eigin innflutningi áfengis. Frá 1995 hefur einkafyrirtækjum verið heimilað að flytja inn áfengi til endursölu, annað hvort til vínveitingastaða eða ÁTVR, en ríkið hefur hins vegar sjálft haldið áfram að flytja inn meginhluta þess varnings, sem seldur er í útsölum fyrirtækisins. Þannig hefur ríkið haldið uppi samkeppni við einkafyrirtækin, og haft það forskot, að vera eini löglegi aðilinn í smásöluverslun með þessa vörutegund. Til þess að mæta þessu vandamáli hefur fjármálaráðherra nú ákveðið að ÁTVR dragi sig út úr þessari starfsemi og einbeiti sér þess í stað að smásölunni. Þar er auðvitað um að ræða skref í rétta átt, en fyrirkomulag áfengissölu verður þó enn til vandræða, þar sem einokunarverslun hlýtur alltaf að fara í bága við frjálsa og heilbrigða samkeppni. Viðunandi lausn fæst ekki fyrr en ríkið hefur alfarið dregið sig út úr verslunarrekstri á þessu sviði.
Vegna lokunar Goethe stofnunarinnar á Íslandi hafa margir risið upp á afturlappirnar og mótmælt með ýmsum hætti. Það er í sjálfu sér vel skiljanlegt að mörgum þyki miður að stofnunin skuli loka, en þar með er ekki sagt að eðlilegt sé að heimta að hún verði rekin áfram. Ástæða lokunarinnar er sparnaður hjá hinu opinbera í Þýskalandi og sérkennilegt ef Íslendingar gerast sérstakir talsmenn þess að skattbyrði Þjóðverja þyngist.
Í nýjasta tölublaði Undirtóna er grein sem ber yfirskriftina „Útivistartími fullorðinna“. Eins og yfirskriftin ber með sér er greinin um takmarkanir á afgreiðslutíma veitingastaða. Þar er m.a. rætt við Jón K. Guðbergsson deildarstjóra hjá Áfengisvarnarráði (hvað ætli séu annars margar deildir þarna hjá ráðinu?). Jón telur „opnunartímann frjálsan að því marki að það má loka hvenær sem er á því tímabili frá því opnað er og þar til klukkan 3 um helgar“! „Sá opnunartími sem nú gildir er alveg nógu langur, það mætti breyta honum þannig að einhverjir lokuðu fyrr“, bætir Jón við.
Síðar í viðtalinu viðurkennir Jón að engu hafi breytt þegar afgreiðslutími var rýmkaður frá klukkan 1 til 3, þannig að í því ljósi er sérstaklega furðulegt að hann vilji ekki að afgreiðslutíminn verði rýmkaður enn meira með því að gefa hann alveg frjálsan.
Annars er öll þessi umræða um afgreiðslutímann sérlega undarleg. Hvers vegna eru stjórnmálamenn að skipta sér af því hvenær fólk skemmtir sér? Er virkilega ástæða til að hafa reglur um útivistartíma fullorðinna.