„Reykjavíkurlistinn setur atvinnumálin á oddinn.“ „Atvinna, já takk.“ „Reykjavíkurlistinn mun standa og falla með atvinnumálunum.“ „Atvinnuleysi er mannskemmandi.“ „Reykjavíkurlistinn telur að nýta eigi afl Reykjavíkurborgar til þess að skapa störf.“ „Nóg að starfa!“ „Reykjavíkurlistinn vill stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja.“ „Reykjavíkurlistinn ætlar að taka frumkvæði gegn atvinnuleysinu.“ „Sett verður á laggirnar útungunarstöð fyrir ný smáfyrirtæki.“
Ofangreind eru nokkur af æði mörgum loforðum R-listans í atvinnumálum fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og dreift var í bæklingi inn á hvert heimili í Reykjavík. Nú kemur það Vef-Þjóðviljanum síst á óvart að menn lofi upp í ermina á sér fyrir kosningar en loforð R-listans í atvinnumálum fyrir síðustu kosningar hljóta þó að teljast með því afdráttarlausasta sem lofað hefur verið í kosningabaráttu hérlendis á síðari árum. Raunar er það mildi að R-listinn hefur ekki staðið við loforð eins og um „útungunarstöðina“. Reykvískir skattgreiðendur mega teljast heppnir að sleppa við kostnaðinn sem slík útungunarstöð á samyrkjubúi R-listans hefði haft í för með sér.
Nú, fjórum árum síðar, segja talsmenn R-listans hins vegar að það sé ekki hlutverk borgarinnar að skipta sér af atvinnumálum. Það sé á könnu ríkisvaldsins. Þó hefur R-listinn skipt sér af atvinnumálum. Að vísu ekki til að efna loforðin sem hann gaf, heldur til að draga máttinn úr fyrirtækjum í borginni. Skattahækkanir, bæði löglegar og þær sem eiga sér ekki lagastoð (heilbrigðiseftirlitsgjaldið), sem dunið hafa á fyrirtækjum og einstaklingum undanfarin ár eru ekki líklegar til að örva atvinnustarfsemi enda hafa fjölskyldur og fyrirtæki streymt í önnur sveitarfélög. Á vissan hátt má því segja að fyrirtækjum hafi verið verið „ungað út“ til annarra sveitarfélaga.