„Heildræn stefnumótun í ríkisrekstri“ er lausnarorð dagsins hjá opinberum stofnunum. Sjálfsagt veit enginn með vissu hvað þetta þýðir, ekki frekar en sjálfbær þróun, lífsleikni, umframhagnaður eða nútímavæðing. Af orðanna hljóðan að dæma mætti þó ætla að með „heildrænni stefnumótun“ vilji menn marka skýra stefnu sem er samkvæm sjálfri sér.
Nú eru tvær ástæður jafnan nefndar fyrir sérstökum skattaafslætti sjómanna. (En með sjómannaafslættinum hafa sjómenn 1.423 krónur í persónuaflsátt á dag á meðan aðrir þurfa að láta 767 krónur duga.). Annars vegar nefna menn hve hættulegt sjómannsstarfið er og hins vegar eigi sjómenn erfitt með að lifa hefðbundnu fjölskyldulífi vegna fjarvista.
Hnefaleikar eru einnig áhættusamt starf en engum hefur dottið í hug að veita hnefaleikaköppum skattaafslátt. Þvert á móti eru þeir ofsóttir af yfirvöldum, eignir þeirra gerðar upptækar og þeir leiddir fyrir dómara.
Vændi, sem sagt er elsta atvinnugreinin, fer ekki með góðu móti saman með hefðbundnu fjölskyldulífi þótt slíkt þekkist vissulega. Þeir sem stunda vændi fá þó ekki sérstakan skattaafslátt og yfirvöld líta starf þeirra fremur óhýru auga.
Hér virðist því nokkuð ósamræmi og ekki úr vegi að grípa til „heildrænnar stefnumótunar“. Það verður annað hvort gert með því að veita hnefaleikaköppum og starsfólki í vændi skattaafslátt eða með því að banna sjómennsku. Hin svonefnda sjómannaforysta virðist hrifnari af seinni kostinum um þessar mundir.