Þriðjudagur 10. mars 1998

69. tbl. 2. árg.

Guðrún Jónsdóttir, hjá Stígamótum viðraði athyglisvert sjónarmið í sunnudagskaffi hjá Kristjáni Þorvaldssyni á Rás 2 á sunnudaginn. Hún benti að að félagsmálastofnanir hins opinbera geti tekið sér svo mikið vald í málefnum einstaklinga og fjölskyldna að fólk veigri sér jafnvel við að leita til þeirra. Sjálfstæð félög eins og Stígamót standa hins vegar jafnfætis einstaklingunum og geta ekki tekið af þeim öll völd eins og opinberu stofnanirnar.

Þrátt fyrir efasemdir sínar um opinberar stofnanir vill Guðrún að ríkið styrki frjáls félagasamtök eins og Stígamót. Ef til vill má þó tryggja rekstur Stígamóta með því að ríkið hætti að styrkja allt og alla og skattar verði lækkaðir. Hinn almenni skattreiðandi myndi vafalaust hafa annan smekk en þeir sem úthluta opinberu fé. T.d. þegar hann þarf að gera upp við sig hvort hann á að greiða miðann í styrktarhappdrætti Stígamóta, Bændasamtakanna eða Félagi um göt á öll fjöll.

Menntamálaráðuneytið hefur sent bækling inn á öll heimili þar sem ný skólastefna er kynnt. Augljóst er að helsta markmið þessarar nýju stefnu er að auka sveigjanleika skólakerfisins og koma þannig tl móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda. Það er vel enda er það oft stór galli á ríkisreknum kerfum að þau miðast við „hagsmuni heildarinnar“ fremur en einstaklinganna. Þannig munu afburðanemdendur eiga þess kost að ljúka grunnskólanámi ári fyrr en nú er en þeim hefur hætt til að koðna niður í aðgerðarleysi síðustu tvö árin í grunnskólanum. Nemendur í framhaldsskólum munu einnig geta hraðað námi sínu og valmöguleikar verða auknir.

Framhaldsskólar munu þurfa að sérhæfa sig að nokkru leyti og fjárveitingar til þeirra miðast við hversu margir nemendur þreyta próf, þ.e. eftir árangri.  Áður var bara miðað við hversu margir innrituðust á hverju ári.  Innan þessa ramma rúmast auðvitað talsvert meiri samkeppni en verið hefur.  Skólar þurfa bæði að laða til sín nemendur með bitastæðu námi og koma þeim í próf til að fá peninga. Þannig fylgja peningarnir nemendunum líkt og um ávísanakerfi væri að ræða, fara þangað sem nemendur fara en miðast jafnframt við fjölda þeirra sem raunverulega taka próf og miðar þannig áfram í námi í einhverjum skilningi.

Í fljótu bragði virðist því skammur vegur yfir í hreint ávísanakerfi. Þ.e. að skólarnir verði einkavæddir en ríkið styrki nemendur sem velji sér skóla að vild. Fjárhagslegur stuðningur hins opinbera við hvern nemanda gæti verið óbreyttur frá því sem nú er. Nemendur fengju einfaldlega senda ávísun frá hinu opinbera sem samsvarar stuðningi til hvers nemanda í dag. Ef einkareknir skólar tækju að keppa um þessar ávísanir er vart við öðru að búast en að nemendur fengju meira fyrir sinn snúð en þeir gera í dag. Keppni um viðskiptavini laðar fram nýjungar, fleiri úrræði og betri þjónustu. Hví ekki? Í þessu sambandi má benda á heimasíðu samtaka í Bandaríkjunum sem berjast fyrir aðskilnaði ríkis og skóla, The Separation of School & State Alliance.