Það hefur ekki verið þrautalaust fyrir fylgismenn einkavæðingar að fá því framgengt að ríkisbankarnir verði seldir og ríkið dragi sig í hlé á fjármagnsmarkaði. Svo undarlegt sem það nú er að þá er nánast allur sá mikilvægi markaður á hendi ríkisins, en með sölu á 10% hlut í Landsbankanum má ef til vill binda vonir við að nýir tímar séu að hefjast.
Eitt af því sem yfirleitt er fylgifiskur ríkisrekstrar er slæm meðferð almannafjár. Það er kunnara en frá þurfi að segja að menn fara betur með eigið fé en annarra. Þegar fjármálafyrirtæki eru komin í einkaeigu munu hluthafar veita stjórnendum þeirra nauðsynlegt aðhald til að ráðdeildar verði gætt í rekstrinum og að ekki verði sóað í vitleysu. Eitt af því sem mun líklega minnka verulega eru ýmis fríðindi stjórnendanna, svo sem laxveiðiferðir, en þær hafa verið nokkuð til umræðu síðustu daga.
Það er athyglisvert í þessu sambandi að sú manneskja sem ber ef til vill hvað mesta ábyrgð á því að laxveiðitúrarnir hafa getað haldist óbreyttir síðustu árin er Jóhanna Sigurðardóttir, sem nú kvartar yfir slæmri meðferð fjár í ríkisbönkunum. Menn muna þá tíð er hún var ráðherra í síðustu ríkisstjórn og hamaðist þá og hótaði öllu illu ef nokkuð yrði hreyft við þessum bönkum. Kom hún því m.a. til leiðar að Alþýðuflokkurinn stöðvaði einkavæðingu ríkisbankanna.
Ágúst Einarsson, þingmaður Þjóðvaka, Alþýðuflokks eða einhvers álíka brotabrots, hefur ákaft haldið því fram í Mogganum að „jafnaðarmenn“ (nýja samheitið yfir flokkaflakkara) séu miklir umbótasinnar, en aðrir, sérstaklega sjálfstæðismenn, séu mikið afturhald. Þessi fullyrðing þingmannsins verður hálf undarleg þegar hún er skoðuð í ljósi þess að það eru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem eru að hefja einkavæðingu ríkisbankanna. Sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn gátu það hins vegar ekki. Það hlýtur að vera raunarlegt fyrir jafnaðarmenn að vera orðnir meira afturhald en framsókn.