Vinstri menn á Íslandi keppast nú við að rífa augun hver úr öðrum í nafni sameiningar. Dæmi um þetta hafa að undanförnu birst á síðum blaðsins Dags, sem annars vegar er eldheitt málgagn sameiningar vinstri flokkanna og hins vegar málgagn Framsóknarflokksins, sem ekki vill sameinast neinum. Þar hafa einkum skipst á skotum að undanförnu þeir Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrverandi Alþýðubandalagsmaður, og Svavar Gestsson, þingmaður þess flokks.
Síðastliðinn miðvikudag blandaði sér svo í deiluna Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ og framkvæmdastjórnarmaður í Alþýðubandalaginu. Tekur hann þar eindregna afstöðu gegn Svavari og færir fyrir því ýmis rök. Athyglisverðasti kaflinn í greininni er svohljóðandi (en áður hafði höfundur fjallað um einkarétt sumra Alþýðubandalagsmanna á stefnu flokksins):
„Alþýðubandalagsskoðanirnar með stórum staf eru margar. Allir vita að Alþýðubandalagið er á móti hernum og Nato. Alþýðubandalagið er líka alltaf á móti Bandaríkjunum. Alþýðubandalagið er á móti EES og telur allt sem kemur frá ESB vera slæmt. Alþýðubandalagið mótaði kosningastefnu fyrir síðustu kosningar, sem var kölluð „útflutningsleiðin“. Sú leið fólst einkum í því að flýja nógu langt frá Evrópu og EES-samningnum til þess að ekki þyrfti frekar að fjalla um þau hræðilegu fyrirbæri. Við áttum að leggja ofuráherslu á viðskipti við Asíuríki. Engum datt í hug að hugsa um mannréttindi og félagsleg réttindi í því sambandi. Barnavinna, þrælkun og álíka fyrirbæri voru ekki á dagskrá Alþýðubandalagsins í sambandi við viðskipti við Asíu, sem voru á öllum sviðum betri en viðskipti í gegn um EES-samninginn. Alþýðubandalagið var jú á móti EES. Ég hef alltaf talið að útflutningsleiðin hafi verið hrein della og léleg tilraun til þess að flýja veruleikann. Margir forystumanna flokksins hafa reyndar viðurkennt þetta í spjalli í minni hópum.“
Þetta eru mjög áhugaverð sjónarmið hjá manni, sem um langt skeið hefur verið virkur í Alþýðubandalaginu og gegnt þar trúnaðarstöðum. Bæði er athyglisvert hvernig hann hæðist að afstöðu flokks síns í mikilvægum utanríkismálum og eins sú einkunn sem hann gefur kjarnanum í kosningastefnu flokksins í síðustu alþingiskosningum. Má raunar telja það sérstætt að hann skuli hafa starfað áfram innan flokks með stefnu, sem hann hefur jafn lítið álit á. Eins vekur þetta spurningar um það, hvers vegna Ari Skúlason sagði þjóðinni ekki með skýrum og afgerandi hætti árið 1995, fyrir kosningar, hvert álit hans á stefnu flokksins væri. Ari Skúlason og samtökin sem hann er í forsvari fyrir, hafa verið þekkt fyrir flest annað en að þegja þegar þeim mislíkar stefna sumra annarra flokka, til dæmis núverandi ríkisstjórnarflokka. Þá er að lokum umhugsunarvert að velta því fyrir sér, til hvaða embættis þjóðin hefur leitt aðalhöfund og hugmyndafræðing „útflutningsleiðarinnar“, sem Ari Skúlason telur að hafi verið „hrein della og léleg tilraun til þess að flýja veruleikann.“ Þessi höfundur var þá formaður Alþýðubandalagsins en var síðar kosinn forseti Íslands, vegna þess að stórum hluta kjósenda var talin trú um að hann myndi stórbæta þjóðarhag vegna þekkingar sinnar á útflutningsmálum!