Laugardagur 7. mars 1998

66. tbl. 2. árg.

Hin kunnu orð Skotans David Hume „frelsið glatast sjaldan allt í einu“ koma upp í hugann þegar menn fylgjast með fréttum frá Þýskalandi um þessar mundir, en þýska þingið samþykkti í vikunni frumvarp um auknar heimildir yfirvalda til hlerana. Hefur því m.a.s. verið haldið fram að þetta minni óþægilega á Þriðja ríkið, enda verði þessar heimildir yfirvalda til eftirlits með borgurunum óeðlilega miklar þegar lögin hafa verið staðfest.

Umræða og hugmyndir af svipuðum toga koma því miður oft upp hérlendis í seinni tíð. Eins og áður hefur verið bent á hér í VÞ eru ýmsir þeirrar skoðunar að hér eigi að heimila „óhefðbundnar rannsóknaraðferðir“ til að eltast við vissa tegund lögbrjóta. Sjálfsagt er að einhverju leyti átt við að auðveldara verði að beita hlerunum eins og í Þýskalandi. Þetta er afar varhugaverð þróun og ef einstaklingarnir standa ekki vörð um frelsi sitt til að vera lausir við látlaust og umfangsmikið eftirlit hins opinbera er hætt við að frelsið glatist smátt og smátt.

Hugmyndir um aukið eftirlit snúast hins vegar ekki alltaf um að góma meinta lögbrjóta. Í útvarpinu í vikunni fór fram umræða um það hvort ástæða væri til að hafa eftirlit með lögum sem spiluð eru. Sumir virðast í fullri alvöru halda að við værum betur stödd ef hið opinbera hefði eftirlit með því sem spilað er í útvarpinu. Hvort eftirlitið á að ganga út á að banna dónaleg lög eða bara leiðinleg lög er ekki gott að segja, en hugmyndin er í öllu falli furðuleg. En kannski er hún svo sem bara „eðlilegt“ framhald af Kvikmyndaeftirliti ríkisins. Hvers vegna skyldi ríkið ekki banna lög ef það bannar kvikmyndir. Og hvenær verður svo tekið upp eftirlit með töluðu máli?