Það er vonandi til marks um að umræðan um umhverfismál er að batna að í síðustu viku birtust nokkrar greinar í dagblöðunum þar sem varað var við heimendaspám umhverfisverndarsinna. Voru þessar greinar kærkomin hvíld frá málflutningi Össurar Skarphéðinssonar, Hjörleifs Guttormssonar og annarra bölsýnismanna.
Oddur Ólafsson skrifaði um bannáráttu umhverfissinna í Dag á laugardaginn: „Auðvelt er að mynda samtök um að banna efnanotkun og bjarga tegundum frá útrýmingu og það er óspart gert og fjölmiðlar heimsins láta nota sig til hvers kyns heimskupara undir því yfirskyni af verið sé að bjarga lífríkinu. Keikófárið er hluti af þeirri hysteríu.
Varla fyrirhittist sá fáráðlingur að hann beri ekki allgott skynbragð á gróðurhúsaáhrifin og getur jafnvel tekið sér í munn orð eins og koltvísýringur og verið gáfulegur í framan. Vafalítið mundi mikill meirihluti láta banna koltvísýring ef spurt væri hvort ekki ætti að hamla gegn gróðurhúsaáhrifum.“
Jakob F. Ásgeirsson skrifaði um dómsdagsmennina í Morgunblaðið á fimmtudaginn. Þar spyr hann sig þeirrar spurningar hvers vegna vísindamönnum hætti til að mála skrattann á vegginn. Og svar hans er: „Höfuðástæðan er samkeppnin um fjármagn. Þeir vísindamenn og þær stofnanir sem reynt hafa að að tala hóglega og af varfærni hafa mátt horfa uppá fjármagnið renna í stríðum straumum til þeirra sem tala glannalega og spá öllu á versta veg – og ýmsir hinna fyrrnefndu hafa nú tamið sér háttu þeirra síðarnefndu.“
Sigurgeir Orri Sigurðsson ritaði svo grein í Morgunblaðið á sunnudag þar sem hann andmælir þeim sem vilja hefta bílaumverð með öllu tiltækum ráðum: „Í köldu og illviðrasömu landi sem Ísland er, er einkabíll nauðsynlegri en víðast hvar annars staðar… Tímasóunin í umferðaröngþveitinu mun valda miklum óþægindum og kosta þjóðfélagið andvirði fjölda barnaheimila og reksturs þeirra. Að greiða ekki fyrir bílaumferð er álíka skynsamlegt og ef sautjándu aldar menn hefðu tekið þá ákvörðun að gelda hrossastofn landsins.“