Í nýrri bók sinni Generosity – Virtue in Civil Society leiðir Tibor R. Machan að því rök að ríkisrekið velferðarkerfi geri okkur erfitt um vik að sýna samúð með náunganum. Velferðarkerfið hafi tekið fram fyrir hendurnar á okkur og það sé ef til vill ekki merki um mjög kærleiksríkst samfélag þar sem neyða þarf fólk (með skattheimtu) til að sýna samúð og rausnarskap. Velferðarkerfið er líka óskilvirkt eins og önnur ríkiskerfi að mati Machans. Bók Machans má kaupa hjá Cato.
Það sem Machan skrifar um í bók sinni er vissulega forvitnilegt efni. Nú þegar vinstri menn hafa loksins viðurkennt yfirburði markaðarins í hefðbundum atvinnurekstri er ef til vill kominn tími til að ræða hvort heppilegt sé að ríkið reki samhjálpina. Kann ekki að vera að ríkisrekin samhjálp leiði til sömu stöðnunar, skrifræðis og óskilvirkni og annar ríkisrekstur? Ríkisstofnanir verða gjarna hagsmunum starfsmanna sinna að bráð og sveigja af þeirri braut sem þeim var upphaflega sett að fylgja. Stjórnmálamennirnir er einnig tregir til að minnka völd sín með því að leggja óþarfar stofnanir niður. Af hverju ætti því annað að eiga við um þær ríkisstofnanir sem reknar eru undir merkjum velferðar og samhjálpar? Og hvað hafa menn fyrir sér í því að samhjálp yrði minni ef ríkið skipti sér ekki af henni?
Eru ekki neikvæð viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur, Sigurðar Guðmundssonar forstjóra Húsnæðisstofnunar og fleiri jafnaðarmanna við tillögum um að leggja Húsnæðisstofnun ríkisins og félagslega húsnæðiskerfið niður einmitt dæmi um það hvernig opinber kerfi verða tregðulögmálinu að bráð? Í þessu sambandi er því ekki fráleitt að benda á aðra góða bók The Ethics of Redistribution eftir Bertrand de Jouvenel. Þar segir m.a.: „Því meir sem menn hugleiða málið því augljósara verður það. Jafnaðarstefnan snýst ekki um að færa auð frá ríkum til fátækra heldur vald frá einstaklingum til ríkisins.“
Bók Bertrands de Jouvenels má kaupa hjá bókaklúbbi Liberty Fund en þar kom út bókalisti fyrir árið 1998 nýlega og að venju er hægt að fá sígild meistaraverk fyrir hlægilegar upphæðir.