Gerhard Schröder, leiðtogi jafnaðarmanna í Neðra-Saxlandi, fagnaði í gær sigri í kosningunum þar. Hann var raunar í slíkri sigurvímu eftir kosningarnar að þegar hann steig í pontu og menn sátu spenntir við sjónvarpsskjáinn að hlýða á fagnaðarerindið kom hann vart upp orði. Og ef marka má fyrri viðbrögð vinstri manna hérlendis verða þeir ekki síður hamingjusamir, þótt þeim verði að vísu sjaldan orðfall. En áður en þeir fara að fagna sem ákafast er ekki úr vegi að benda á að hann sigraði á sömu forsendum og nýlegur stór-sigurvegari vinstri manna, Tony Blair, með því að vera „hægrisinnaður vinstrimaður“. Og það er vissulega fagnaðarefni þegar eina ráð vinstri manna til að sigra kosningar er að vera sem minnstir vinstri menn.
Samkvæmt frétt DV í dag hefur það sýnt sig sem VÞ hefur bent á að samkeppni ríki á brauðmarkaði hvort sem fyrirtæki þar sameinast eða ekki. Hagkaup og Bónus eru að kanna kaup á lítilli brauðverksmiðju frá Danmörku og mun brauðmarkaðurinn búa við mögulega samkeppni af því tagi hvort sem þessi fyrirtæki láta verða af því að kaupa verksmiðju nú eða láta það ógert. Aðalatriðið er að brauðmarkaðurinn býr ekki við ríkisvernd.
Hið sama má sjá á raftækjamarkaðnum. Þar er nú hörð samkeppni um viðskiptavini og verð lækkar. Ef marka má úrskurð Samkeppnisstofnunar vegna brauðmarkaðarins mun hún þó taka í taumana ef þeir sem í keppninni standa hafa rétt fyrir sér um að einhverjir muni heltast úr lestinni, a.m.k. ef það verður með þeim hætti að önnur stóru verslananna kaupi hina. Þá verða kaupin látin ganga til baka til þess eins að annar aðilinn geti farið á hausinn. Eða er e.t.v. einhver grundvallarmunur á brauð- og raftækjamarkaði að mati hins opinbera?