„Góð íþrótt gulli betri“ segir máltækið og undir það tekur Vefþjóðviljinn. Vetrarólympíuleikarnir í Nagano í Japan hafa verið sendir út beint um rásir ríkisútvarpsins sjónvarps og verið þvílíkt skemmtiefni að þeir hafa haldið vöku fyrir stórum hluta þjóðarinnar. Fyrst er til að taka frábæra framsetningu japanskra sjónvarpsmanna á efninu þar sem nútímatækni er nýtt á þann veg að áhorfendum finnst þeir í raun vera staddir á hinum glæsilega leikvangi í Nagano. Í annan stað er einkennandi fyrir leikana hve keppni í flestum greinum er hörð og hve margir keppendur hafa komið á óvart, ekki síst hinir íslensku.
Þessu öllu hafa beinar útsendingar ríkisútvarpsins sjónvarps skilað áhugafólki um skíðaíþróttina í nákvæmum smáatriðum, svo sem um eiginleika smurefna og hæfni smurningsliða hinna ýmsu þjóða. Eitt er þó það sem skyggir á vetrarólympíuleikana í Nagano sem og alla aðra íþróttaiðkun og -leika en það eru slysin sem eru því miður alltof tíð. Nýleg dæmi höfum við úr skíðastökkinu, þó að þar fari þrautþjálfaðir menn í fremstu röð í heiminum. Alltof oft kemur það fyrir, hvort sem í hlut eiga keppnisíþróttamenn í fremstu röð eða almenningur sem stundar útivist eða reglubundna hreyfingu af einhverju tagi sér til ánægju og heilsubótar að slys eða álagsmeiðsl gera að engu árangur erfiðisins. Langflest þessara álagsmeiðsla mætti koma í veg fyrir með réttri upphitun fyrir æfingar og góðum teygjum á eftir.
Sóknarfærin eru þó jafnvel meiri þegar kemur að slysunum enda er löngu ljóst að öryggisbúnaður býðst sem hentar öllum tegundum íþrótta. Tilkoma línuskautanna svokölluðu hefur leitt til þess að skautaiðkun á nú sífellt meiri vinsældum að fagna enda gefst með línuskautunum færi á að stunda íþróttina allan ársins hring. Ekki skal hollusta skautaíþróttarinnar dregin í efa hér en skautaslys eru þó alltof tíð og eingöngu vegna vanbúnaðar þeirra sem hana stunda. Ekki þarf annað en hjálm, hnjáhlífar, nýrnabelti, ökkla- og úlnliðshlífar, olnbogahlífar, mjaðmaskel, mjóbakshlíf, herðaskjöld, endurskinsmerki, ljós og hanska til að koma í veg fyrir slysin en eins og allir vita þá gera þau ekki boð á undan sér. Á meðfylgjandi mynd er sjón sem er alltof algeng í okkar samfélagi, skautamaður sem ekki hirðir um að verja sig með neinum hætti. Vefþjóðviljinn vill skora á ráðamenn jafnt sem almenning að grípa til aðgerða svo draga megi úr slysum í íþróttum. Myndin hér til hliðar ætti að vera okkur áminning um að öll berum við ábyrgð og er hlutur stjórnvalda þar ekki minnstur. Það er þjóðarskömm að ekki skuli neinstaðar vera að finna opinberar reglur um hlífðarbúnað skautamanna og á meðan svo er munum við aldrei eignast skautamenn í fremstu röð.
Ekkert okkar má skorast undan í baráttunni gegn þeim vágesti sem skautaslysin eru orðin. Vanbúinn skautamaður þarf að sæta ábyrgð gjörða sinna og ennfremur þarf að þyngja viðurlög við því ólíðandi athæfi óprúttinna einstaklinga að hvetja til hlífðarbúnaðarlausra skautaferða. Heimildir Vefþjóðviljans herma að stundum safnist ungmenni saman að næturlagi og stundi þann hættulega leik að renna sér hlífðarlaus. Lögreglan verður að grípa hér í taumana og heimildir hennar til óhefðbundinna rannsóknaaðferða verður að rýmka svo æska þessa lands verði vágesti þessum ekki að bráð heldur verði samkeppnishæf!