Ríkisstýrð vímuefnaneysla beið mikinn hnekki á dögunum þegar upplýst var að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefði vísvitandi leynt hluta af niðurstöðum rannsóknar, sem stofnunin gerði á skaðsemi nokkurra vinsælla vímuefna og birt var í vikuritinu New Scientist í desember síðastliðnum. Niðurstöðurnar voru enda mjög í aðra veru en iðulega er haldið fram af fylgjendum ríkisstýrðrar vímuefnaneyslu, það er þeim sem telja að ríkið eigi að selja sum vímuefni en banna önnur. Áróður þeirra hefur til margra ára snúist um að önnur vímuefni en áfengi og tóbak séu svo hættuleg, að þau „megi“ ekki selja almenningi. Niðurstöður fyrrnefndrar rannsóknar voru hins vegar þær, að reykingar kannabisefna væru hættuminni en bæði tóbaksreykingar og áfengisdrykkja. Kannabis væri að auki mun síður ávanabindandi en hin vímuefnin tvö. Að vísu gerði stofnunin máttvana tilraun seint í fyrrakvöld til að bera til baka fréttir af því að umræddum niðurstöðum hefði verið leynt. Er því nú haldið fram að niðurstöður þessa hlutar rannsóknarinnar væru í raun óvísindalegar, þrátt fyrir að aðrir hlutar rannsóknarinnar, auk annarra rannsókna stofnunarinnar, væru að sjálfsögðu í hæsta máta vísindalegar.
Þessa niðurstöðu virðist stofnunin ekki getað þolað og má af því sjá hve hún, eins og aðrir talsmenn ríkisstýrðrar vímuefnaneyslu, eru djúpt sokknir í áróðursstríð, þar sem vísindalegar rannsóknir og rökræður koma ekki lengur við sögu. Milton Friedman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hitti naglann á höfuðið þegar hann ritaði nýlega í grein í dagblaðinu New York Times, að baráttan gegn vímuefnum hefði beðið ,,siðferðilegt gjaldþrot“. Meðal raka hans fyrir þessari skoðun má nefna: Notkun „uppljóstrara“ hefur í för með sér óheyrilegan kostnað og spillingu, eins og Íslendingar hafa nýlega verið minntir óþyrmilega á. Fangelsi hafa fyllst frá því að ríkisstýrð vímuefnaneysla var tekin upp fyrir um aldarfjórðungi síðan. Eyðilegging miðborga á stórum þéttbýlissvæðum má einna helst rekja til þeirrar glæpaöldu sem ríkisstýrð vímuefnaneysla hefur í för með sér. Bann á verslun með tiltekin vímuefni leiðir einungis til okurverðs, hrakandi gæða, útbreiðslu smitsjúkdóma og fjölgun glæpa – en ekki minni neyslu. Þriðja hverjum dauðvona krabbameinssjúklingi í Bandaríkjunum eru gefin ófullnægjandi verkjalyf, eingöngu vegna vímuefnabannsins. Ríkisbann á vímuefnum hefur valdið efnahagslegu og stjórnmálalegu öngþveiti í heilu ríkjunum, þar á meðal í Kólombíu, Perú og Mexíkó.
Í dag er kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Einn frambjóðenda, Böðvar Jónsson, hefur sett upp heimasíðu og eitt af slagorðum hans er „kjósum öflugan frjálshyggjumann í bæjarstjórn!“
Það er ekki oft sem Íslendingar leika stór hlutverk í Hollywood myndum. Þetta virðist Jónasi Sigurgeirssyni, ritstjóra Hamars í Hafnarfirði og framkvæmdastjóra Bókafélagsins, þó hafa tekist í myndinni Kiss the Girls sem nefnist Safnarinn í íslenskum kvikmyndahúsum. Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar hefur Jónas litað hár sitt dökkt og tekið upp leikaranafnið Cary Elwes. Kvikmynd þessi er æsispennandi enda meistari Morgan Freeman í aðalhlutverkinu. Jónas, sem sjálfur er einstakt ljúfmenni, leikur fremur viðsjálan karakter í myndinni, svo ekki sé meira sagt.