Föstudagur 20. febrúar 1998

51. tbl. 2. árg.

Þau rök eru stundum notuð til að réttlæta ríkisrekstur á útvarpsstöð, að með því móti sé tryggt að almenningur eigi kost á hlutlausum fréttaflutningi og umræðum um þjóðmál, þar sem ólík sjónarmið geta komist að. Nú er það svo, að fréttastofa Ríkisútvarpsins stendur sig oft vel. Sama má raunar segja um fréttadeild Morgunblaðsins og fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar, þótt þar sé um einkarekin fyrirtæki að ræða. En þrátt fyrir ágæta frammistöðu á köflum, þá hendir það æði oft að fréttamenn og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins láta eigin afstöðu ráða ferðinni og misnota þannig aðstöðu sína, vitandi eða óafvitandi.

Nýlegt dæmi um þetta er val á viðmælendum í fréttaskýringarþáttum vegna sjómannadeilunnar. Þar hafa þáttargerðarmenn talið rétt að leita álits sérfræðinga á deilunni og áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga til að stöðva verkfallið. Ekkert er við það að athuga, að leitað sé álits sérfræðinga, en hverjir voru sérfræðingarnir í þessum tilvikum? Í morgunþættinum „Hér og nú“ var talað við Atla Gíslason hrl. sem sérfræðing á þessu sviði. Í síðdegisþættinum „Víðsjá“ var talað við Arnmund Backmann hrl. Ekki var rætt við aðra lögfræðinga um málið. Ekki skal dregið úr því, að bæði Atli og Arnmundur hafa árum saman starfað að málum, sem tengjast kjaradeilum og vinnurétti. Hins vegar hafa þeir tengst þessum málum sem lögmenn verkalýðsfélaganna, meðal annars sjómannasamtakanna, og eru því talsmenn ákveðinna sjónarmiða og hagsmuna, en ekki hlutlausir sérfræðingar! Í hvorugu tilvikinu var þess getið í kynningu, að viðkomandi hæstaréttarlögmaður væri lögmaður verkalýðshreyfingarinnar eða talsmaður hagsmuna sjómanna. Látið var nægja að kalla þá báða „sérfræðinga á sviði vinnuréttar“.

Ekki var rætt við lögmenn LÍÚ eða VSÍ, sem vissulega eru einnig „sérfræðingar á sviði vinnuréttar“,og ekki einu sinni við einhverja aðra lögmenn, sem ekki hafa þau beinu hagsmunatengsl við verkalýðshreyfinguna, sem þeir Atli og Arnmundur hafa. Nei, þeir höfðu orðið og notuðu að sjálfsögðu tækifærið, eins og góðum lögmönnum sæmir, til að halda fram sjónarmiðum skjólstæðinga sinna með eindregnum hætti. Er þetta dæmi um hlutleysi Ríkisútvarpsins í umfjöllun um viðkvæm deilumál í þjóðfélaginu?

Það hefur nú verið staðfest af dómstól Handknattleikssambands Íslands að íþróttir snúast um nærföt. Dómstóllinn tók bikarmeistaratign af valsmönnum þar sem einn leikmanna liðsins var í röngum nærbol. Íþróttaáhugamenn almennt virðast líka almennt taka afstöðu eftir því hvernig klæði leikmanna líta út. Einu gildir þótt allir leikmenn liðs séu komnir frá öðrum liðum og hafi talist andstæðingar árum saman. Það eina sem skiptir máli er að menn  skarti réttri brók. Má furðu sæta að helstu nærfataráðgjafar þjóðarinnar, t.d. Heiðar snyrtir, hafi ekki sótt inn á þennan völl.

Við þetta má svo auðvitað bæta að dómstóll HSÍ hefur með úrskurði sínum gert áhorfendum íþróttakappleikja mikinn greiða. Nú þurfa menn ekki lengur að sitja tímunum saman yfir leikjum enda með öllu tilgangslaust þegar úrslitin ráðast hjá dómstólnum alvitra.