Fimmtudagur 19. febrúar 1998

50. tbl. 2. árg.

Yfir því hefur verið kvartað hér í VÞ að lítill munur sé að stefnu þeirra kjörnu fulltrúa sem starfa í sveitarstjórnum. Árangur sé einkum mældur í hversu mörgum krónum úr vösum skattgreiðenda menn ná að eyða. Nú hefur Árni Sigfússon hins vegar lagt fram tillögu í borgarráði um að athugun fari fram á einkaframkvæmd Sundabrautar en hún mun liggja yfir Kleppsvík, Gufunes, Geldinganes, Álfsnes, yfir Kollafjörð og upp á Kjalarnes. Brautin mun að mestu leyti vera á brú.

Í vegaáætlun ríkisins er ekki gert ráð fyrir þessari braut næstu 12 árin þótt vel megi vera að þegar sé eftirspurn eftir þessum vegi. Árni vill því láta kanna hvort einkaaðilar væru tilbúnir til að standa að framkvæmdinni gegn því að þeir fengju innheimta vegagjöld með einhverjum hætti. Þetta hlýtur að vera sjálfsagt mál.
Það væri auðvitað eðlilegast að þeir sem nota veginn greiði fyrir þá notkun með vegagjöldum. Ef ríki eða borg greiða kostnaðinn lendir hann jafnt á þeim sem aka veginn fimm sinnum á dag og hinum sem aldrei stiga upp í bíl og ýmist hjóla (t.d. Einar Valur Ingimundarson) og synda (Helgi Hjörvar og Ingibjörg Sólrún) milli staða.

Í þessu samhengi má benda á að óhófleg skattlagning á bíla og slök frammistaða hins opinbera við að mæta eftirspurn eftir góðum samgöngumannvirkjum ætti að valda umhverfisverndarsinnum áhyggjum enda seinkar skattlagningin því að menn endurnýi bíla sína. Gamlir bílar valda mestum útblæstri. Umferðatafir vegna lélegra samgöngumannvirkja auka sömuleiðis á orkusóun og óþarfa útblástur. Engu að síður eru margir umhverfisverndarsinnar hlynntir aukinni skattlagningu á bíla og andvígir uppbyggingu samgöngumannvirkja.
Þannig hefur nær öll  umræða hérlendis um „græna skatta“ snúist um að hækka skatta á bíla. Það bendir hins vegar ýmislegt til þess að skattar séu þeim mun „grænni“ sem þeir eru lægri.

Í dag fimmtudag fara fram kosningar í Háskóla Íslands. Háskólanemar velja þar á milli tveggja fylkinga sem bjóða fram til Stúdentaráðs og háskólaráðs. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta, og Röskva, samtök félagshyggjufólks, berjast nú af krafti um atkvæði hvers einasta háskólastúdents. Þau sjónarmið heyrast stundum, að svo lítill munur sé á fylkingunum tveimur, að menn geti alveg leitt kosningar í Háskólanum hjá sér. Ekki verður séð að það sé alveg rétt. Á fylkingunum er meðal annars sá grundvallarmunur, að Vaka vill gefa aðild að Stúdentaráði frjálsa en Röskva vill það alls ekki.

Reyndar er ekki allskostar nákvæmt að segja að einungis tvær fylkingar séu í boði. Einnig býður fram Haki, félag öfgasinnaðra stúdenta, og segist einkum berjast fyrir öfgum og völdum sér til handa. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.