Á viðskiptaþingi Verslunarráðsins í síðustu viku ræddi formaður ráðsins Kolbeinn Kristinsson m.a. um blokkamyndun og fákeppni í íslensku atvinnulífi. „Aðalatriðið er að markaðurinn sé opinn, að þeir sem geti gert hlutina betur en aðrir fái tækifæri til að komast að og að engir aðilar geti slegið eign sinni á einhverja markaði,“ sagði Kolbeinn meðal annars og er óhætt að taka undir þessa hugsun. Allt of algengt er að þeir sem fjalla um þessi mál haldi að ráðið við fákeppni sé að ríkisvaldið grípi inn í með einhverjum „aðgerðum“.
Á sama þingi kom fram í máli Kristínar Guðmundsdóttur fjármálastjóra Granda að eftirlitsiðnaður hins opinbera hefði í för með sér mikinn kostnað fyrir atvinnulífið. Tugir eftirlitsstofnana eru starfandi og kostar rekstur þeirra þrjá milljarða króna, en kostnaður fyrirtækja vegna eftirlitsins er talinn vera tíföld sú upphæð, eða 30 milljarðar. Samkvæmt því nemur eftirlitsiðnaðurinn um 5-10% af landsframleiðslunni og skyldi engan undra, því hann hefur hingað til fengið að þenjast út eftirlitslaust. Nú stendur hins vegar til að gera breytingar á þessu, því frumvarp forsætisráðherra gerir ráð fyrir að rannsaka þurfi, áður en íþyngjandi reglur eru settar, hvort þær kunna að vera til ills þegar á allt er litið.
Þeir sem hafa áhuga á (eða áhyggjur af) kenningunni um gróðurhúsaáhrifin ættu að kíkja á umfjöllun um málið á heimasíðu Ágústs H. Bjarnasonar verkfræðings.