Reglufíkn er víst ein fárra fíkna sem enn hefur ekki fengið stimpilinn „sjúkdómur“, en þó hvarflar að mönnum að hún sé engu síður alvarlegt vandamál en t.d. spilafíkn. Eitt dæmi um þessa fíkn er frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, formanns hins sökkvandi Þjóðvaka, um starfsemi stjórnmálasamtaka. Í frv. eru reglur um nánast allt sem lýtur að starfsemi stjórnmálasamtaka, m.a. uppbyggingu þeirra, og er liðsmönnum samtakanna ekki heimilt að ráða því hvernig stjórnmálasamtök þeirra skulu starfa.
Nú, svo á auðvitað að setja reglur um fjárframlög til samtakanna, bæði frá hinu opinbera og einkaaðilum. Einkaaðilar mega skv. frv. ekki styrkja um meira en 300.000 krónur á ári án þess að frá því sé greint opinberlega. Hvernig þessu skal framfylgt er vitaskuld ekki lýst, enda engin leið.
Um styrkina frá hinu opinbera er það að segja að þeir munu þýða aukin framlög hins opinbera til stjórnmálaflokkanna (enda hefur sparnaður lítið átt upp á pallborð vinstri manna). Auk þess munu þeir koma þeim stjórnmálasamtökum sem þegar hafa þingmenn afar vel, vegna þess að þingstyrkur hefur mest að segja um styrkina. Sápukúluframboð eins og Þjóðvaki mun með þessu frv. komast í enn digrari sjóði en nú og þiggja í fjögur ár rausnarlegar greiðslur frá almenningi þótt þessi sami almenningur hafi löngu misst trú á framboðinu. Þar með er líka minna eftir í vösum almennings til að styrkja önnur framboð sem honum hugnast betur og sápukúluframboðin hafa fjárhagslega burði til að auglýsa sig upp þótt enginn styrki þau sjálfviljugur.
Forskotið sem þau stjórnmálasamtök hafa sem sæti eiga á Alþingi ætti að vera nægjanlegt þótt þau fái ekki styrk að auki sem ný framboð fá ekki. Styrkirnir hygla gömlum framboðum og flokkum á kostnað nýrra. Hvernig það samræmist lýðræðishugtakinu, sem Jóhanna og aðrir sjálfskipaðir vinir lýðræðisins klifa iðulega á, er ekki gott að segja, en auðvelt er að koma auga á hvernig það þjónar hagsmunum þeirra.
Elsa flytur pistil sinn sem að þessu sinni er um jafnréttismál upp úr klukkan 8:30 í dag. Hér er pistlunum safnað saman.