Helgarsprokið 15. febrúar 1998

46. tbl. 2. árg.
Það er einkenni á ríkisrekstri að þar reyna menn oft að leiðrétta eina vitleysu með annarri. T.d. hefur verið starfrækt Jafnréttisráð á vegum ríkisins undanfarna áratugi. Fyrir nokkrum misserum komust menn svo að því að Jafnréttisráðið væri eiginlega Ójafnréttisráð þar sem það sinnti nær eingöngu örðu kyninu og var nær eingöngu skipað þessu sama kyni þ.e. konum. En í stað þess að leggja þetta furðufyrirbæri niður var bætt við nýju ríkisapparati, Karlanefnd jafnréttisráðs.

Í frétt í DV föstudaginn 6. febrúar var viðtal við nýjan formann karlanefndarinnar. Þar segir hann að karlanefndin leggi áherslu á að karlar fái fæðingarorlof eins og konur. En það misrétti hefur tíðkast hér að aðeins konur hafa fengið fæðingarorlof. En í stað þess að afnema fæðingarorlof kvenna og tryggja þar með raunverulegt jafnrétti allra hvort sem þeir eignast börn eður ei vill karlanefndin  að karlmenn fái laun frá ríkinu til að vera heima hjá ungviðinu. Þar með myndi fæðingarorlof foreldra lengjast úr 6 mánuðum í 12 með tilheyrandi tvöföldun á kostnaði. (Úr 1,5 milljarði í 3,0 milljarða króna á ári fyrir ríkið.) Formaður karlanefndarinnar segir að nefndin vilji að báðir foreldrar taki 4 mánuði í orlof og fái svo náðarsamlegast að skipta 4 mánuðum á milli sín að vild.

Það vekur auðvitað furðu hversu lítil mótspyrna kemur frá stjórnmálamönnum þegar rætt er um barnatengda styrki. Hvað gerir þessa styrki svo heilaga að helst þurfi að auka þá? Kýs fólk ekki af fúsum og frjálsum vilja að eignast börn? Veit fólk ekki örugglega hvernig getnaður á sér stað? Þrátt fyrir að íslenska skólakerfið skori ekki háttt í alþjóðlegum könnunum má telja nær öruggt að flestir viti hvernig börn verða til þegar þeir öðlast getu til þess.

Barneignir geta heldur vart talist veikindi eða fötlun þótt ætla mætti það af þeim styrkjum sem þær njóta. Þeir sem eignast börn eru að gera það fyrir sjálfa sig og eiga að bera kostnaðinn af því. Hinir sem eignast ekki börn eða eignast færri börn en gengur og gerist eiga ekki að gjalda þess. Þeir eiga ekki að eyða ævi sinni í að vinna fyrir barnabótum, mæðralaunum, barnabótaauka, leikskólavistun, skólavistun og fæðingarorlofi vegna annarra manna barna. Það er af og frá að skattgreiðendur eigi að greiða meðlag með börnum sem enginn hefur beðið um nema foreldrarnir sjálfir.