Laugardagur 14. febrúar 1998

45. tbl. 2. árg.
VÞ sagði frá því 27. janúar síðastliðinn að Guðrún Ágústsdóttir hefði í prófkjörsbaráttu R-listans endurbirt gamla Morgunblaðsgrein sína nánast orðrétt í DV, en 83% greinarinnar voru orðrétt endurbirting frá því hálfu ári áður. Þegar skrif annarra alþýðubandalagsmanna (fyrrverandi og núverandi) í prófkjörinu eru skoðuð kemur í ljós að Guðrún er ekki ein á báti.

Þannig skrifar ungur og ferskur Hrannar Björn Arnarsson stútfullur af nýjum hugmyndum tvær greinar í baráttunni með viku millilbili (21.1. í DV og 28.1. í Moggann). Þegar þær eru skoðaðar nánar kemur í ljós að í raun er um sömu grein að ræða. Í seinni grein Hrannars kemur ekkert nýtt fram og er 81% hennar orðrétt endurtekning á fyrri grein en afgangurinn er lítilsháttar umorðun.

Sá sem fór verst út úr prófkjörsreglunum (þá er Alþýðuflokkurinn ekki talinn með), Árni Þór Sigurðsson, á líka makalausustu endurtekninguna. Hann skrifar sömu greinina (með lítilsháttar orðalagsbreytingum, eins og  „R-listans“ verður „Reykjavíkurlistans“) í DV og Moggann sama dag, 28. janúar.

Hver er munurinn á launatékka (beingreiðslu á máli landbúnaðarkerfisins) ríkisins til Páls háskólaprófessors og Péturs bónda? Ef marka má umræður um niðurgreiðslur til landbúnaðar annars vegar og háskóla hins vegar mætti ætla að á þessum launagreiðslum væri verulegur munur. Af einhverjum ókunnum ástæðum virðast menn líta á styrki til bænda sem styrki til bænda en ekki til ekki til viðskiptavina þeirra. En styrkir til háskólakennara eru almennt taldir styrkir til viðskiptavina þeirra þ.e. nemenda.
Ein ágætt skýring á þessu gæti verið sú að háskólamenn hafa tekið við af bændaleiðtogum og héraðshöfðingjum sem fréttaskýrendur fjölmiðlanna. Nú eru það háskólamenn sem „reikna“ út hvað er „þjóðhagslega hagkvæmt“ og segja frá því í fréttum. Oftast nefna þeir aukin fjárframlög til „æðri menntunar“.

Vinstri menn í Kópavogi hafa ákveðið að hafa ekki bæjarstjóraefni sitt, Valþór Hlöðversson, til sýnis á framboðslista sínum fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Það er vafalaust sterkur leikur .