Í dálki í Viðskiptablaðinu í vikunni er ritað um aumkunarvert hlutskipti Ríkissjónvarpsins og þar segir: „Það er erfitt að berjast við jafn harðskeyttaandstæðing og Stöð 2 með báðar hendur bundnar aftur fyrir bak. Enda ekki nema von að Jón Ólafsson tali fallega um þennan meinta samkeppnisaðila. Á meðan RÚV er haldið í núverandi kyrkingarástandi er staða Stöðvar 2 trygg. Þessu til viðbótar kemur RÚV í veg fyrir að upp rísi annað einkafyrirtæki sem veitt gæti Stöð 2 samkeppni. Ef eitthvað gengur upp hjá RÚV þá býður Stöð 2 bara örlítið betur. Þannig getur Stöð 2 notað RÚV sem könnunarfyrirtæki, látið þættina byrja þar og hrifsað þá til sín ef þeir líka vel.“
Þetta er hárrétt ábending hjá Viðskiptablaðinu. Ríkissjónvarpið kemur í veg fyrir að önnur einkarekin sjónvarpsstöð festi rætur og veiti Stöð 2 samkeppni. Ríkissjónvarpið verndar Stöð 2 fyrir alvöru samkeppni. VÞ hvetur menntamálaráðherra enn og aftur til að beita sér fyrir afnámi skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu og einkavæðingu þess.
Ágúst Einarsson ritar grein í Morgunblaðið í fyrradag og lýsir yfir miklum áhyggjum af fákeppni og valdasamþjöppun í þjóðfélaginu. Ef VÞ man rétt hefur þessi sami Ágúst verið sérstakur talsmaður þess að þjappa stjórnmálaflokkum saman og vill helst sameina alla vinstri flokkana í „einn stóran og öflugan“. Þrátt fyrir að slík sameining leiði til fákeppni á markaði félagshyggjunnar og valdasamþjöppunar verður hún Ágústi vafalaust til léttis en hann hefur átt virkilega bágt með að velja sér flokk á rýmingarsölunni sem staðið hefur yfir á vinstri vængnum undanfarin ár.