330. tbl. 1. árg.
Pistlar sem Björn Bjarnason menntamálaráðherra ritar reglulega á heimasíðu sína eru oft athyglisverðir. Þannig er um þann síðasta. Þar segir Björn meðal annars frá skondnum orðaskiptum sínum við starfsmann rússneska sendiráðsins á fundi fyrir helgi. Björn víkur einnig að máli sem virðist hafa gufað upp eftir að Jón Baldvin Hannibalsson ákvað að gerast au pair á Vosbúðartúni. Björn segir m.a.: „Sleggjudómar einkenna umræður um utanríkismál, jafnt þegar um þau er rætt á fræðilegum forsendum eða pólitískum. Til dæmis hafa ýmsir kennarar í stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands fellt harða dóma um andvaraleysi stjórnmálamanna, af því að þeir hafa ekki sett það á dagskrá að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu (ESB). Hafa þeir þar sungið undir með Jóni Baldvini Hannibalssyni sendiherra á meðan hann sinnti stjórnmálum og hafði að höfuðmarkmiði að gera hlut Sjálfstæðisflokksins sem minnstan. Hvað segja þessir menn nú, þegar þeir hlusta á Gerhard Schröder, forsætisráðherra Neðra-Saxlands og líklegt kanslaraefni þýskra sósíaldemókrata? Hann sagði á fundi hér föstudaginn 21. nóvember, að víst mundi ESB stækka í austur en hvort það tæki fimm eða tíu ár vissi enginn og Íslendingar hefðu valið skynsamlegasta kostinn fyrir sig, að standa utan við ESB. Hvaða stjórnmálamanni með skynsamlega sýn á stöðu Íslands gagnvart ESB dytti í raun, að gera það að úrslitaatriði á þessu kjörtímabili, að Ísland yrði aðili að ESB. Líklegt er raunar, að næsta kjörtímabil líði hér á landi, án þess að ESB stækki eða taki við nýjum aðildarríkjum, enda hefur fjarað undan pólitískum umræðum um þetta mál, eftir að Jón Baldvin hvarf úr stjórnmálaumræðunum, sem sannar að hitinn í því var bundinn við hann og einkastríð hans við Sjálfstæðisflokkinn.“
Ágúst Einarsson hefur mikið rætt um siðleysi þess að handhafar veiðiheimilda við Íslandsstrendur græði á því að nýta þessar heimildir. Ágúst er stór hluthafi í einu öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins og því einn þeirra sem græðir á þessu sem hann segir siðlaust. Ágúst Einarsson lagði milljónir króna í Dag-Tímann fyrir skömmu. Síðan hefur það vakið nokkra athygli hve oft er rætt við Ágúst í blaðinu. Í síðustu tveimur tölublöðum Dags-Tímans hafa t.d. verið þrjár forsíðumyndir af Ágústi og opnuviðtal. Hefði ekki verið ódýrara fyrir Ágúst að kaupa nokkrar heilsíðuauglýsingar í Morgunblaðinu? En sennilega þarf sægreifinn ekki að spá í aurana.
Vinstrimannafélag nema í framhaldsskólanum á Vestfjörðum hefur sett upp heimasíðu. Þaðan er m.a hægt að komast á heimasíðu perúsku hryðjuverkasamtakanna Skínandi stígs. Vonandi verða starfsaðferðir Skínandi stígs engum til eftirbreytni þótt ungir vinstrimenn á Íslandi mæli með þeim. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðast aðstandendur þessa vinstrimannafélags vera fylgjendur sósíalisma en andstæðingar fasisma. Sósíalismi (eða félagshyggja) og fasismi eru tvær greinar af sama meiði. Báðar stefnurnar gera ráð fyrir umsvifamiklum ríkisrekstri og ríkisforsjá.
|