Það hljómaði einkennilega í margra eyrum þegar samgönguráðherra í utandagskrárumræðu á þingi notaði m.a. sem rökstuðning fyrir hækkun símtala að verðbólga hefði „geisað“ hér á landi undanfarin ár. Þetta gengur þvert á aðrar upplýsingar frá ríkisstjórninni, sem hafa allar gengið út á að hér sé „hófleg verðbólga“, eins og segir t.a.m. á einum stað í texta þeim sem fylgdi frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Það nægir svo sem ekki til að skýra hækkun símans að vísa til verðbólgu undanfarinna ára, svo há hefur hún ekki verið, auk þess sem einokunarfyrirtækið ætti fremur að bæta reksturinn en hækka gjaldskrá. Þetta breytir þó ekki því, að kannske er réttara að tala um að verðbólga hafi „geisað“ hér síðustu ár en að hún hafi verið „hófleg“. Lág verðbólga er skaðleg, þótt hún sé svo sem skárri en há verðbólga, og ef litið er á nokkur ár verða áhrifin greinileg. Sem dæmi má nefna að jafnvel 2,5% verðbólga sem geisar í 10 ár rýrir verðgildi peninga um rúmlega fimmtung.
Egill Jónsson stjórnarformaður Byggðarstofnunar og þingmaður Sjálfstæðisflokks (þótt sumum finnist hann frekar eiga heima í Framsóknarflokki) svaraði í útvarpi á miðvikudagsmorgun fyrir þá ákvörðun stofnunarinnar að flytja tiltekna deild í stofnuninni út á land. Taldi Egill mun meiru skipta að tefja með þessu eðlilega byggðaþróun en að starfsmenn kærðu sig um að flytja. Um kostnaðinn var hann ekki spurður, en varla leikur vafi á að hann er umtalsverður. Slíkar vangaveltur skipta þó litlu þegar um er að ræða að viðhalda óbreyttri byggð á Íslandi og varla ástæða að efast um að Byggðastofnun veit best hvernig fé fólks skal varið og hvar fólki er best búa.
Félag íslenskra netverja (FÍN) hefur sett upp heimasíðu þar sem menn geta m.a. skráð sig til liðs við samtökin. Þeir sem skrá sig fyrir 10. nóvember teljast stofnfélagar.
Vef-Þjóðviljinn óskar Alþýðubandalaginu til hamingju með daginn. Fram þjáðir (vinstri) menn…