Miðvikudagur 5. nóvember 1997

309. tbl. 1. árg.

Það er hreint ótrúlegt hvað ýmsir embættismenn og sérfræðingar hafa mikla trú á alls kyns lögum og reglugerðum sem hafa flestar það að markmiði að létta af fólki þeirri kvöð að hugsa. Vinnuverndarákvæði eru þar fyrirferðarmikil, enda finnst flestum „sjálfsagt“ að vinnustaðir eigi að vera sem hættuminnstir fyrir starfsfólkið. Þann 3. júlí sl. gaf félagsmálaráðuneytið út Reglugerð um notkun tækja (nr. 431). Það ágæta fólk sem samdi reglugerðina verður ekki sakað um leti, né hyskni í starfi og er af mörgu að taka sem sýnir hve iðnir þessir sérfræðingar eru. Önnur grein fjallar um skilgreiningar og þar segir m.a.: „a. Tæki: Vél eða vélbúnaður, áhald, verkfæri eða þess háttar búnaður sem notaður er á vinnustöðum; b. notkun tækja: Allar athafnir sem tengjast tækjum, svo sem að ræsa þau eða stöðva, beiting þeirra, flutningur, viðgerðir, breytingar, viðhald og umhirða, þar með talin þrif; d. starfsmaður í hættu: Hver sá starfsmaður sem að einhverju eða öllu leyti er á hættusvæði“. Hættusvæði er að sjálfsögðu einnig skilgreint sérstaklega í reglugerðinni. Sjöunda greinin heitir: Vinnuvistfræði og hollustuhættir á vinnustöðum. Þar segir: „Þegar framfylgt er lágmarksákvæðum um öryggi og hollustuhætti skal vinnuveitandinn taka fullt tillit til vinnuaðstæðna starfsmanns og líkamsstöðu hans við notkun tækja auk þess sem honum ber að taka mið af meginhugmyndum vinnuvistfræðinnar.“ Þeim atvinnurekendum, sem ekki hafa „meginhugmyndir vinnuvistfræðinnar“ á hreinu er bent á að IV. kafli reglugerðarinnar fjallar um refsiákvæði og þar segir (12.grein): „Brot á þessari reglugerð varða viðurlögum samkvæmt 99. gr. laga nr. 46/1980.“

Fréttamat íslenskra fjölmiðla er oft undarlegt. Þannig þótti það tíðindum sæta fyrir nokkrum missserum að verðmæti, nánar tiltekið peningar, hefðu horfið í tolli. Allir sem sótt hafa vörur í toll vita að tollurinn er vanur að gera a.m.k. 24,5%  þeirra verðmæta sem hann afgreiðir upptæk. Seinna fundust umræddir peningar í gjótu í Hafnarfjarðarhrauni. En hvað með það? Hefur umtalsvert fé ekki endað í holu í fjöllum á Vestfjörðum án þess að það þætti sérstaklega  fréttnæmt? Og brimgarði við Blönduós? Í skurðum í mýrarflákum og flóum hist og her um landið?