Það má nota ýmsar aðferðir við að koma áróðri sínum til skila. Í fréttum Ríkissjónvarpsins á sunnudagskvöldið var t.d. tekið svo til orða í fréttayfirliti að Íslendingar verðu „aðeins“ tilteknu hlutfalli landsframleiðslu til félags- og heilbrigðismála. Í frétt fréttamannsins, Jóns Gunnars Grétarssonar, var haldið áfram á þessum nótum, sagt að Íslendingar væru aðeins „hálfdrættingar“ á við aðrar Norðurlandaþjóðir í þessum efnum. Talið var upp hversu langt þær væru komnar á eyðslubrautinni og sagt í lokin að Finnar „stæðu sig best“ þar sem þeir eyddu mestu í þessi málefni. Finnst engum óeðlilegt hve persónulegar skoðanir fréttamannsins hafa hér mikil áhrif. Þessi fréttamaður er greinilega á þeirri skoðun að það sé rétt að útgjöld til þessara mála séu sem allra hæst hlutfall af landsframleiðslunni og hann lætur eins og það sé óumdeild staðreynd. Hvað ætli menn hefðu sagt ef hann hefði verið gagnstæðrar skoðunar og látið hana hafa sömu áhrif á sig? Ef hann hefði sagt að við stæðum okkur betur en hinar Norðurlandaþjóðirnar og ástandið væri verst í Finnlandi? Ætli þá hefðu ýmsir ekki uppi stór orð um hlutdrægni í fréttamennsku? Þess má svo geta að erlendis hafa menn víða mjög miklar áhyggjur af þeirri þróun að fleiri og fleiri þiggja alls kyns „bætur“ fyrir hitt og þetta og færri og færri eru til þess að standa undir öllum þessum bótum. En hér hugsar líklega enginn um slíka hluti.
Menn eru enn að velta fyrir sér ástæðu þess að Össur Skarphéðinsson, þingmaður Þjóðvaka, var skipaður ritstjóri DV. Það hefur þó varla skemmt fyrir að annar þingmaður Þjóðvaka, Ágúst Einarsson, lagði fram hlutafé í Dag-Tímann sem sömu aðilar gefa út. Hvaða ávöxtunarkröfu gerði Ágúst siðapostuli Einarsson?
Í helgarsproki fyrir rúmri viku var fjallað um frammistöðu nokkurra þátttakenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Lesandi sendi inn athugasemdir og hér eru viðbrögð við þeim athugasemdum.