Mánudagur 3. nóvember 1997

307. tbl. 1. árg.

Sigrún Davíðsdóttir ritar oft skemmtilega pistla frá Kaupmannahöfn í Morgunblaðið. Í Morgunblaðinu í gær er pistill frá Sigrúnu um klámþjónustuna í Danmörku en dönsk yfirvöld láta sér í léttu rúmi liggja þótt einhverjir hafi gaman af því að skoða myndir af bólförum annarra eða fullorðið fólk láti fé fyrir fullnægingu. Er raunar talið að þegar klámið var leyft hafi dregið verulega úr kynferðislegu ofbeldi enda hafi klámið að einhverju leyti fullnægt þörfum þeirra sem eiga bágt með að hemja sig. Ekki er heldur að sjá að Danir séu verra fólk en aðrið þótt klámið sé leyft en eins og Sigrún bendir á þá er enginn neyddur til að horfa á eða  taka þátt.

Helgi Hjörvar er framkvæmdastjóri Blindrafélagsins. Upp á síðkastið hefur orðið nokkur kippur í fjölmiðlavænum viðburðum á vegum félagsins. Helgi leikur einnig í bílaauglýsingum þessa dagana. Þá lagði Helgi fram tillögu í stjórn veitustofnana Reykjavíkurborgar þess efnis að þær athuguðu möguleikana á rekstri símafyrirtækis. Fyrir þetta fékk Helgi viðtal í sjónvarpinu. Það dettur auðvitað engum í hug að þessi mál tengist því að það er prófkjör framundan hjá R-listanum. Hvað þá að Helgi ætli sér að taka þátt í prófkjörinu.

Frambjóðendur í nýafstöðnu prófkjöri sjálfstæðismanna gerðu flest til að kynna sig.  Þessar kynningar voru oft býsna miklar lofrullur og finnst þeim sem til þekkja stundum að heldur meira hafi verið sagt en auðvelt sé að standa við, jafnvel þótt um annars ágæta frambjóðendur hafi stundum verið að ræða. Fátítt er þó að menn reyni að skreyta sig með því sem þeir hafa alls ekki gert, en þó má nefna eitt dæmi þar um. Þannig segir einn frambjóðandinn í auglýsingu í Mogganum 21.október undir fyrirsögninni „Guðlaugur Þór hefur tekið til hendinni“: „Guðlaugur stýrði vinnuhópi á vegum Sambands ungra sjálfstæðismanna um málefni aldraðra“. Staðreyndin er þó sú að fyrir SUS þing í haust var frambjóðandinn formaður málefnanefndar um þessi mál og átti hún eins og aðrar nefndir að starfa og skila af sér drögum að ályktun á þinginu. Hann skilaði aldrei neinu af sér og varð það til þess að SUS gerði ekkert í þessum málaflokki. Ýmsum finnst að í formannstíð frambjóðandans hljóti að hafa gerst nóg til að hann hefði ekki þurft að skreyta sig með því sem ekki gerðist. En eftir á að hyggja virðist frambjóðandinn þó hafa grætt á þessu og ef til vill er það bara það eina sem skiptir máli.