Í stjórnmálaumræðunni komast oft skringilegar hugmyndir á kreik. Ein er að stjórnmálamenn eigi að beita hinu opinbera fyrir sig til að hafa áhrif á það hversu mikið fólk vinnur og að þeir geti haldið launum þess uppi með einhvers konar tilskipunum. Þannig halda sumir mátulega alvarlegir stjórnmálamenn því fram að hægt sé að stytta vinnutíma til að auka atvinnu eða frítíma án þess að laun þurfi að skerðast. Óvíst er að þeir hafi nokkuð hugsað út í hvernig þetta komi út, nema að því leyti að þetta kunni að auka vinsældir þeirra á atkvæðamarkaðnum. Sumir þeirra ímynda sér þó ef til vill að þeir hafi patentlausnir til að auka afköst hverrar unninnar stundar þannig að ekki þurfi að vinna jafn mikið og nú er gert. Þó eru lausnir þessara manna yfirleitt ekki til þess fallnar að auka afköst heldur þvert á móti að draga úr þeim. Þetta eru yfirleitt sömu mennirnir og telja að nauðsyn krefji að fjölga reglum um allt milli himins og jarðar og hækka skatta eins og kostur er. Þessar reglur og skattar draga svo úr afköstum fyrirtækjanna á hverja unna vinnustund og minnka möguleika þeirra að hækka kaup.
Stundum eru þessir menn þeirrar skoðunar að í heiminum sé aðeins visst magn vinnu sem inna þurfi af hendi og því sé nauðsynlegt þegar atvinnuleysi ríkir að skipta vinnunni á milli manna.
The Economist gerir þetta einmitt að umræðuefni í einum leiðara sínum í síðasta blaði, þar sem segir m.a.: „Staðreyndin er sú að spurn eftir vinnuafli er háð framleiðni og launakostnaði. Færri stundir skapa aðeins fleiri störf ef vikuleg laun eru jafnframt lækkuð – en starfsmenn eru andsnúnir því. Auk þess geta ráðningar, þjálfun og annar fastur kostnaður gert það dýrara fyrir fyrirtæki að hafa marga starfsmenn sem vinna stuttan vinnutíma en færri starfsmenn sem vinna lengur. En það sem verra er, styttri vinnutími kann að draga úr framleiðni fyrirtækis ef samræming verður erfiðari vegna fleiri starfsmanna. Færri vinnustundir kunna þess vegna að draga úr framleiðslu og fækka störfum.“ Á móti segðu ýmsir að ef menn ynnu færri stundir væru þeir síður lúnir og afköstuðu því meiru. Staðreyndin er þó sú að í dag er fátítt að svo sé, enda aðstæður orðnar allt aðrar en þær voru á árum áður. Nú hafa flestir hóflega vinnuviku og þótt sums staðar sé vafalaust hægt að auka afköstin með því að draga úr vinnunni er það undantekning og ekkert sem stjórnmálamenn geta haft áhrif á. Slíkt er vandamál einstakra fyrirtækja og þeirra að leysa ætli þau að standa sig í samkeppninni.
Þetta er einmitt aðalatriðið. Það er ekki stjórnmálamanna að lýsa því yfir að stytta eigi vinnuvikuna eða hækka launin. Stjórnmálamenn eiga að skipta sér sem minnst af slíku og alls ekki nema í stofnunum og fyrirtækjum ríkisins, en slík fyrirbæri eiga að vera mun færri en nú er. Þetta er starfsmanna og vinnuveitenda að ákveða í samningum sín á milli. Það sem stjórnmálamenn eiga hins vegar að gera er að skapa atvinnulífinu það umhverfi að afköst geti aukist og laun hækkað. Það gera þeir best með því að minnka afskipti sín af því með því að fækka reglum og lækka skatta. Að því búnu gera þeir mest gagn með því að vinna sjálfir styttri vinnuviku.