Gróska, samtök ungs vinstrisinnaðs fólks, auglýsir fundi „um allt land“ í Mogganum í fyrrdag. Þeir sem að samtökunum standa virðast helst áhugasamir um eigið framapot í pólitík, a.m.k. fer lítið fyrir stefnu samtakanna. Vera má að vænlegt sé til árangurs í stjórnmálum að hafa enga skoðun. Það er þó dapurt þegar ungt fólk fer mikinn og þykist vera boðberar nýrra tíma í íslenskum stjórnmálum og ætla að sameina vinstri menn ef það er í raun ekki að sameinast um neitt nema eigið framapot. Stefnulaus samtök af þessu tagi verða enda aldrei langlíf. Eins og dæmin sanna leysast slík vinstri samtök fljótt upp, fjúka út í veður og vind og verða að engu eins og hver önnur gjóska.
Í kringum ofannefnda auglýsingu Gjósku eru með smáu letri falin nokkur slagorð sem valin eru með það fyrir augum að sem flestir geti tekið undir þau. Þar er t.d. sett fram stefnan, eða e.t.v. frekar hin fróma ósk, „styttri vinnutíma án tekjuskerðingar“. Hver getur svo sem verið á móti þessu? Enginn. Hvað þýðir þetta? Ekkert. Svona lagað er eingöngu sett fram til að slá gjósku í augu fólks.