289. tbl. 1. árg.
Örn Valdimarsson ritar grein í Viðskiptablaðið í vikunni þar sem hann gerir athugasemdir við þá útreikninga sem segja að hver landsmaður eigi kvóta að verðmæti 700 þúsund krónur og þá umræðu sem í kjölfarið hefur fylgt. Örn segir m.a.: „Það sem verkur mesta furðu við þessa umræðu er að svo margir skuli í blindni trúa því að að tiltekinn kvóti sé svo og svo mikils virði án tillits til þess hver ráðstafar honum og hvernig hann er nýttur. Ekki er annað að sjá en fjölmargir, til dæmis flestir fundarmanna á stofnfundi Samtaka um þjóðareign, hreinlega trúi því að kvóti upp á til dæmis eitt tonn af þroski jafngildi 700 þúsund krónum í peningum, óháð því hvernig þessi kvóti er veiddur, hvernig aflinn er verkaður og seldur og hver tilkostnaður allur við þetta er.“ Örn bendir einnig á að ef það er rétt að hvert mannsbarn á Íslandi á 700 þúsund króna kvóta sé upplausnarverðmæti flestra sjávarútvegsfyrirtækja á Verðbréfaþingi Íslands töluvert hærra en markaðsvirði þeirra. Ef kvótinn er þetta mikils virði er t.d. upplausnarvirði ÚA nær tvöfalt hærra en markaðsvirði fyrirtækisins. Ef útreikningarnir um verðmæti kvótans eru réttir geta menn því eignast kvóta á hálfvirði með því að kaupa hlutabréf í ÚA. Sjálfur segist Örn hins vegar ekki ætla að kaupa bréf í ÚA.
Í leiðara Viðskiptablaðsins er fjallað um þá viðhorfsbyltingu sem orðið hefur til einkavæðingar ef marka má skoðanakannanir en þrír af hverjum fjórum í nýlegri skoðanakönnun Gallups eru fylgjandi sölu hlutabréfa í ríkisbönkunum. Þetta segir Viðskiptablaðið vera mikla breytingu þar sem meirihluti í samkonar könnunum hafi til skamms tíma lýst sig andvígan einkavæðingu bankanna. Og Viðskiptablaðið heldur áfram: „Með þennan stuðning að leiðarljósi hlýtur ríkisstjórninni að vaxa þróttur og kjarkur í áformum sínum að draga ríkið úr atvinnurekstri og innleiða samkeppni á svið atvinnulífsins, þar sem hún er lítil eða engin. Þar ber hæst orkugreinin, sem er í raun án allrar samkeppni, þrátt fyrir alla möguleikana sem þar eru fyrir hendi.“
Elsa B. Valsdóttir lýsti eftir þjófi í pistli sínum á Rás 2 hinn 30. september. Einhver hafði stolið nær helmingi af kaupi hennar!
|