Bókaklúbburinn Liberty Fund hefur loksins sett upp heimasíðu á Netinu. Bókaklúbburinn gefur út eigin útgáfur af þeim bókum sem hann býður. Þeir sem vilja eignast á ódýran hátt fallegar útgáfur af sígildum verkum eldri meistara á borð við Adam Smith, Wilhelm von Huboldt, Edmund Burke, Herbert Spencer, William Graham Sumner, Bernard Mandeville, David Hume, David Ramsay, Fisher Ames, Lord Acton o. fl. ættu að kíkja á heimasíðuna eða ná sér í pöntunarlista Liberty Fund við fyrsta tækifæri. Liberty Fund var stofnað árið 1960 og einbeitir sér að útgáfu og útbreiðslu rita um einstaklingsfrelsi. Allar bækurnar sem bókaklúbburinn býður upp á eru gefnar út af Liberty Fund á einkar smekklegan hátt. Þrátt fyrir það er verðið á bókunum ótrúlega lágt. Að vísu bætir íslenska ríkið 25% við verðið þegar bækurnar berast til landsins sem er auðvitað óþolandi án þess að því sé haldið fram að bækur eigi að njóta sérkjara í skattkerfinu. Virðisaukaskatturinn er bara óþolandi (hár). Merki bókaklúbbsins, sem sést hér að ofan er fyrsta þekkta orðið fyrir frelsi, og var ritað árið 2300 fyrir Krists burð. Frjálshyggjumenn fóru snemma á stjá!
Vef-Þjóðviljinn minnir unnendur góðra bóka einnig á heimasíðu Laissez-Faire Books sem býður meira úrval bóka en Liberty Fund en einnig á mjög hagstæðu verði.