hins opinbera. Þar er m.a. rætt við Tryggva Þór Herbertsson, forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Í viðtalinu varar Tryggvi við því að sparað verði í heilbrigðis- og menntamálum. Enda muni sparnaður í heilbrigðiskerfinu koma mjög niður á ellilífeyrisþegum og niðurskurður til menntamála muni koma niður á okkur síðar. Mannvitsuppbyggingin verður ekki jafn hröð og ella, segir Tryggvi. Síðar í viðtalinu segir Tryggvi um gagnrýni vinnuveitenda á vaxtastefnu Seðlabankans: Þetta eru nú bara ákveðnir hagsmunahópar að tjá sig.
Hvað má þá segja um skoðanir forstöðumanns stofnunar innan menntakerfisins á útgjöldum til menntamála? Hvort hefur mannvitið eða hagmunagæslan betur þegar útgjöld til menntamála eru til umræðu í Hagfræðistofnun Háskóla Íslands?
Minnst var á það í síðustu viku…
að Morgunblaðið og Dagur-Tíminn sögðu ekki frá andláti Díönu Spencer, fyrrverandi prinsessu, fyrr en á þriðjudaginn, en frú Spencer lést aðfaranótt sunnudags eftir bílslys seint á laugardagskvöldi . Ekki vitum við alveg hvað réði því að blöðin sögðu ekki frá þessu fyrr en svona seint, en gerum helst ráð fyrir því, að þau hafi verið að freista þess að þagga málið niður en séð á þriðjudaginn að það myndi líklega ekki takast.
Dagur-Tíminn hefur svo reynt að þagga útför hennar niður frá því hún fór fram í fyrradag. Það er illskiljanlegt hvað Stefán Jón Hafstein ritstjóri Dags-Tímans hefur á móti því að fjalla um þetta mál.
Eins og kunnugt er er Vef-Þjóðviljinn meðal heitustu…
aðdáenda núverandi sameiningartákns þjóðarinnar, Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrverandi fjármálaráðherra. Þess vegna skilur Vef-Þjóðviljinn vel að menn vilji gera margt til heiðurs forsetanum en þó finnst okkur hér full langt gengið að sýna heila bíómynd um Ólaf Ragnar eins og Stöð 2 virðist hafa gert á laugardagskvöldið. Mynd þessi var gerð í Hollywood nokkrum árum áður en Ólafur tók við embætti forseta.