Helgarsprokið 7. september 1997

250. tbl. 1. árg.
Það er víðar styrr útaf útvarpsstöðvum…
en á Íslandi. Atburðir síðustu daga og vikna í Pale hljóta að vekja menn til umhugsunar um hvers vegna í ósköpunum friðarbandalagið Nató er komið í hernaðarlega ævintýramennsku í fyrrum ríkjum Júgóslavíu. Vissulega var erfitt fyrir hinn siðaða heim að horfa upp á nágranna sína sökkva niður í villimennsku borgarastyrjaldar, en spurningin er: Getum við eitthvað gert við þessu? Það er síður en svo sjálfgefið að Vesturlönd hlaupi til með fjárhagsaðstoð og gæslulið þegar þessar þjóðir láta af þeim aldagamla ósið mannkyns, að brytja niður konur og börn. Í fyrsta lagi er þetta fólk að gera sjálfu sér miklu meiri greiða með því en okkur (Þó við hljótum að gleðjast yfir þessu framfaraspori þeirra) og í öðru lagi sýna undangengnir atburðir hversu lítils við erum megnug til þess. Það er ekki trúverðugt þegar sveitir sem sendar eru inn í land til að tryggja frelsi og lýðræði eru farnar að skekja vopn til að loka útvarpsstöðvum sem flytja efni þeim óvilhallt.

Aftur á móti hafa Vesturlönd tök á að vera ríkjum…
sem eru á valdi villimennskunnar góð fyrirmynd, það gera þau með því að treysta lýðræði í sessi í eigin ríkjum, efla markaðsbúskap og veita skjól hverjum vinnufúsum manni. Hernaðarævintýri á hinn bóginn grafa undan borgaralegu siðferði og hagkerfi Vesturlanda. Ávinningurinn er ekki líklegur til að vera mikill, nema að innfæddir séu sjálfir á því að semja um frið, og þá er engin þörf fyrir utanaðkomandi aðstoð. Líklegasta niðurstaðan er sú að íbúarnir sem við ætlum okkur að hjálpa snúist gegn Vesturlöndum. Afskipti Vesturlanda vekja óraunhæfar væntingar umburðarlyndi og velmegun, en það verður að koma innan frá.

Júlíus Hafstein fyrrverandi borgarfulltrúi ritaði…
grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann sagði m.a.: „Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var mikið gefið af loforðum. Mátti vart á milli sjá hvor framboðslistanna var duglegri í yfirboðunum. Meirihlutinn er í þeirri stöðu að reyna að efna loforðin eða neyðsat til að svíkja eitthvað af þeim en minnihlutinn á þann kost að sýna aðhaldsstefnu og hætta að taka þátt í yfirboðunum. Afgreiðsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár er lokaprófið fyrir næstu borgarstjórnarkosningar.“ Sjálfsagt er að taka undir með Júlíusi. Það væri tilbreyting ef borgarstjórnarkosningar byðu upp á ólíka kosti fyrir kjósendur. Því miður hafa borgar- og sveitastjórnarmál snúist um endalaus yfirboð.