Miðvikudagur 3. september 1997

246. tbl. 1. árg.
Enn einu sinni eru starfsmannamál SVR…
til umræðu í fjölmiðlum. Það er eins og R-listanum ætli ekki auðnast að ná tökum á rekstri fyrirtækisins og bætist það því að langan lista yfir vanefndir listans á kosningaloforðum. Það þættu vafalaust stórtíðindi ef jafnmikillar óánægju gætti með starfsmannamál einkafyrirtækis. Tillögu um að fá ráðgjafafyrirtæki til að gera úttekt á starfsmannamálum fyrirtækisins var hafnað af R-listanum. En til hvers hefði það þurft? Hefði ekki bara mátt ráða forstjóra á faglegum grunni í stað þess að borgarstjóri træði vinkonu sinni í starfið? En sem kunnugt er sótti Lilja Ólafsdóttir um starfið að áeggjan Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þetta mál sýnir glögglega áhrif hinna nýju kvennapólítísku sjónarmiða í íslenskri pólítík. Í stað þess að konur berjist ásamt körlum fyrir hugsjónum er komin siðfræði saumaklúbbana.

Í grein hér á sunnudaginn var kvartað undan því að fólk…
væri hætt að ræða grundvallaratriði í pólítík, ekki síst í ungliðahreyfingum flokkanna. Það er einkar athyglisvert í ljósi þess að forystumenn ungliðahreyfinganna eru flestir á mála hjá ráðherrum flokkanna, flokkskontórum eða ríkistofnunum. Kerfið hefur komist upp á lag með að ríkisvæða ungt fólk áður en það einkavæðir kerfið. Þetta kallast víst nútímavæðing.