Helgarsprokið 10. ágúst 1997

222. tbl. 1. árg.

Nú fyrir verslunarmannahelgina birtust miklar auglýsingar…
þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstýra og Jakob Björnsson halló-bæjarstjóri hvöttu foreldra til að hleypa börnum sínum ekki eftirlitslausum á hátíðir um helgina. Hófust auglýsingarnar á fullyrðingu Ingibjargar og Jakobs að engir vissu betur en foreldrar barna hvað þeim væri fyrir bestu. Gott og vel. Má þá ekki örugglega vænta þess að þau Ingibjörg og Jakob beiti sér fyrir því að hið opinbera hætti að skipta sér af því hvenær börn mega vera úti, hvar þau mega vera og hvað þau megi gera. Munu þau Ingibjörg og Jakob ekki treysta foreldrum barnanna best til að taka ákvarðanir um slík efni?

Í hinni nýju bók sinni Hidden Order…
bendir David Friedman á að það sé hér um bil gagnslaust að kjósa. Það sé í það minnsta rökrétt fyrir hinn almenna kjósanda að láta allt stjórnmálastúss lönd og leið – það sé rökrétt að vera óupplýstur um stjórnmál, rökrétt fáfræði eins og Friedman kallar það. Líkurnar á því að atkvæði eins kjósanda breyti niðurstöðu kosninga séu hverfandi. Til hvers að setja sig inn í mál og taka afstöðu ef það breytir engu? Kostnaðurinn við upplýsingaöflunina skilar sér varla. Hagsmunahópar fjárfesta hins vegar beint í stjórnmálaítökum og sleppa þessari vonlausu leið sem kosningar eru. Það er ástæðan fyrir því að þeir hafa betur en kjósendur þótt kjósendur hafni sjónarmiðum þeirra með margföldu atkvæðamagni.Bókin fæst hjá Laissez Faire bókaklúbbnum fyrir $19.95.