Laugardagur 9. ágúst 1997

221. tbl. 1. árg.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, hefur hafið birtingu reglulegra útvarpspistla…
sinna í heimasíðu sinni undir nafninu EFST Á BAUGI. Þar er einnig að finna dagbók prófessorsins sem áhugamenn um atferlisfræði eiga vafalaust eftir að nýta sér. Það verður þó að segjast sem er að dagbækur Hannesar sem birtust í vikublaðinu Eintaki hér um árið voru miklu skemmtilegri.

Í einum útvarpspistla sinna efast Hannes um…
að það sé nóg að hafa þrjú dagblöð eða þrjá aðila í stórtækum fjölmiðlarekstri hérlendis. Svo virðist sem Hannesi sé nokkur eftirsjá í flokksblöðunum og huggi sig helst við að hafa Ríkisútvarpið! Hannesi til frekari hughreystingar má benda á að aldrei hafa verið gefin út jafnmörg fréttablöð og tímarit, aldrei hefur verið auðveldara að senda út á öldum ljósvakans og aldrei hefur verið hægt að ná til jafnmarga og með Internetinu. Það er barnaleikur að setja upp heimasíður á netinu sem ná til milljóna manna og það kostar álíka mikið og að vera áskrifandi að einu dagblaði. Það má líka spyrja Hannes hvernig hann fái það út að ekki séu nægilega mörg blöð á markaðnum. Bar markaðurinn öll blöðin sem komu út fyrir nokkrum dögum? Vildi einhver kaupa þessi blöð? Nei. Það er líka spurning hvað menn vilja gera til að fjölga blöðum. Auka ríkisstyrki til blaðaútgáfu? Hverjir ættu að fá þá styrki? Það er auðvelt að kvarta undan því sem fram fer á markaðnum en erfitt á benda á eitthvað betra í staðinn.


Og meira af Hannesi sem ritaði grein…
í Morgunblaðið í gær þar sem ekki ófrægari persónur en Imelda Marcos, Þorvaldur Gylfason og Adam Smith koma við sögu. Eins og Hannes rekur í greininni mun Þorvaldur hafa varpað þeirri spurningu fram hvernig mönnum þætti ef ávextir allrar hagræðingar rynnu til Imeldu. Þessari spurningu var ætlað það hlutverk að vera rök fyrir veiðileyfaskatti. En eins og Hannes bendir á skýtur skökku við í þessari röksemdarfærslu hagfræðiprófessorsins því Imelda Marcos var einmitt stjórnmálamaður og Þorvaldur vill að stjórnmálamenn hirði arðinn af fiskveiðum hér við land með því að leggja á veiðileyfaskatt.