Fimmtudagur 7. ágúst 1997

219. tbl. 1. árg.

Steve Forbes er stjórnarformaður Forbes og yfirritstjóri samnefnds tímarits…
sem hefur um 750.000 áskrifendur og er stærsta viðskiptatímarit heims. Það vakti mikla athygli þegar hann sóttist eftir útnefningu repúblíkana til forsetaembættisins á síðasta ári. Helstu stefnumál hans lúta að auknu rými einstaklinga og fyrirtækja sem hann telur forsenduna fyrir aukinn velmegun. Tillögur hans um flatan skatt voru eitt helsta umræðuefnið í bandarísku þjóðlífi á síðasta ári. Forbes ritaði nýlega grein í tímaritið IMPRIMIS þar sem hann lýsir skoðunum sínum og útskýrir hugmyndina um flatan skatt. Í greininni sagði hann m.a.: „Skattar eru ekki bara aðferð til að ná inn tekjum fyrir hið opinbera, þeir eru einnig einskonar gjald. Skattar á tekjur og eignir eru gjaldið sem við þurfum að greiða fyrir að vinna, sýna framleiðni, frumkvæði og njóta velgengni. Ef gjaldið er hátt sækjumst við síður eftir þessum hlutum. Ef gjaldið er hins vegar lágt eykst ásóknin. Skattar eru því hindrun á framfarir enda refsa þeir mönnum fyrir velgengni. Með Kemp-Roth lögunum árið 1981 og skattalagaumbótunum árið 1986 voru tekjuskattar einstaklinga gerðir lægri en þeir höfðu verið undangengna hálfa öld. Þessar breytingar áttu stærsta þáttinn í framfaraskeiðinu sem fór í hönd. Engu að síður neita margir stjórnmálamenn að horfast í augu við þessar staðreyndir og neita að viðurkenna að skattalækkanir hafi jákvæðar afleiðingar. Þeir gera sér heldur ekki grein fyrir að það er fólk en ekki stjórnarstefnur sem knýr hagkerfið áfram.“