Þriðjudagur 5. ágúst 1997

217. tbl. 1. árg.

Eitt af því sem snillingarnir í höfuðstöðvum Evrópusambandsins…
í Brussel hafa ákveðið er að visst hlutfall umbúða verði að vera endurvinnanlegt. Þessi tilskipun mun vera sögð með hagsmuni umhverfisins í huga og nýtur mikils stuðnings meðal umhverfisverndarsinna. En hverjar eru afleiðingarnar? Jú, fyrirtæki verða að fara eftir þessari tilskipun. Þau verða því að nota umbúðir sem auðvelt er að endurvinna fremur en umbúðir sem eru ódýrar og fyrirferðarlitlar en ekki er hægt að endurvinna. Þetta getur þýtt að meiri orku (bruna og útblástur) þarf til að framleiða og flytja umbúðirnar, að ekki sé minnst á þá orku sem fer í að endurvinna þær fremur en að urða. Allir geta líklega verið sammála um að það sé efnahagslega heimskulegt að sóa orku (í framleiðslu og flutning) á þennan hátt. Og umhverfisverndarsinnarnir, sem alltaf eru að heimta meiri endurvinnslu, hafa einmitt miklar áhyggjur af bruna jarðeldsneytis til orkuframleiðslu og þeim útblæstri sem honum fylgir!