Föstudagur 11. júlí 1997

192. tbl. 1. árg.

Hreggviður Jónsson, fyrrverandi þingmaður Borgaraflokksins,…
var í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem hann lýsti því að hópur fólks væri íhuga framboð til borgarstjórnar næsta vor. Ástæðan var að sögn óánægja með Sjálfstæðisflokkinn en flestir í hópnum hefðu raunar kosið R-listann í síðustu kosningum. Sérstaklega nefndi Hreggviður óánægju með skipulagsmál. Hreggviður var eitt sinn formaður Skíðasambandsins og fararstjóri skíðalandsliðsins á Ólympíuleika. Skipulagsmál voru því í hans höndum. Skíðin gleymdust heima eins og frægt varð.

Eigandi jarðarinnar Brattholts við Gullfoss hefur byggt hús á áningarstað við fossinn…
þar sem hann hefur til sölu varning fyrir ferðamenn. Leigutaki landsins er Ferðamálaráð og var húsið byggt þarna án vitneskju þess. Ferðamálastjóri vill lítt tjá sig um málið í Morgunblaðið í gær en það má lesa á milli línanna að hann er ekki mjög hress með að þjónusta við ferðamenn skuli vera aukin með þessum hætti. Auðvitað á ekki að byggja á landinu án heimildar leigutaka en þetta dæmi sýnir vel það óvissuástand sem ríkir á mörgum ferðamannastöðum sem ríkið hefur tekið að sér. Ríkið sér um flestar ferðamannaperlur landsins. Afleiðingin er sú að þeim er haldið í fjársvelti og of litlu fé varið í gæslu, lagningu göngustíga, girðingar eða aðstöðu fyrir ferðamenn. Aðstöðuleysið við Gullfoss er þekkt og gönguslóðarnir að fossinum breytast í drullusvað í rigningum.

Bent hefur verið á að sumir þjóðgarðar liggi undir skemmdum þar sem ekki fáist fé til að verja þá fyrir ágangi. Lausnin er sú að ferðamálaráð og aðrar ríkisstofnanir dragi sig út úr rekstri áhugaverðra staða eins og Gullfoss, Geysis, Dimmuborga o.s.frv. og láti einkaaðilum það eftir. Sjálfsagt er að selja aðgang að náttúruperlum og nota hluta aðgangseyris til að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn og vernda svæðið. Leigutakar (eða eigendur ef þær væru einkavæddar) myndu sjá sér beinan hag í því að viðhalda gæðum svæðisins og auka þau. Þá myndu þeir án efa sýna meiri hagkvæmni í markaðssetningu hérlendis og erlendis en þær ríkisstofnanir, sem nú sjá um reksturinn, hafa gert.

Enn eykur sjónvarpsstöð ríkisins umsvifin og nú með…
morgunsjónvarpi, sem á að byrja í haust. Björn Bjarnason menntamálaráðherra hlýtur að rökstyðja sérstaklega slíka aukningu á umsvifum þessarar ríkisstofnunar sem skattgreiðendur eru látnir halda uppi með nauðungargjöldum. Morgunsjónvarpið verður „magasínþáttur“ eins og Dagsljós og að mestu leyti sendur út í beinni útsendingu. Í Morgunblaðinu í gær er sagt frá því að hver Dagsljóssþáttur kosti um hálfa milljón króna en morgunþættirnir verði eitthvað ódýrari. Samkvæmt því er ekki ótrúlegt að hver þáttur kosti um 300 þúsund krónur. Kostnaðurinn við morgunsjónvarpið yrði þannig um 80 milljónir á ári eða um 60 milljónir ef hann yrði aðeins níu mánuði ársins.
Miðað við þá kveinstafi sem berast stöðugt frá Ríkisútvarpinu er þar ekki feitan gölt að flá. Fyrir skattgreiðendur verður því fróðlegt að sjá hvernig morgunsjónvarpið verður fjármagnað. Verða afnotagjöldin hækkuð eða fé skorið niður annars staðar í stofnuninni, t.d. til menningarefnis? Væri ekki nær að lækka afnotagjöldin ef Ríkisútvarpið á fé aflögu?