Miðvikudagur 2. júlí 1997

183. tbl. 1. árg.

Ólafur Ragnar Grímsson var á forsíðu DV í gær. Þar var hann að fagna…
því að frelsi hafði verið aukið í flugi. Ekki stóð Ólafur sjálfur reyndar að þeirri frelsisaukningu, reyndar hafa fáir stjórnmálamenn verið eins áhugalitlir og hann um frelsi í viðskiptum. Aukið frelsi í flugi nú er t.d. afleiðing EES samningsins sem Ólafur beitti sér mjög gegn. Er því tvennt sérkennilegt við myndina í DV, annars vegar er kátína Ólafs undarleg og þá er ekki síður undarlegt að honum hafi verið boðið að samgleðjast með þeim sem fögnuðu auknu frelsi í flugi þennan dag. Nema að fagnaðarlæti Ólafs hafi verið af öðrum toga spunnin. Ef marka má fréttir er þróunin á markaðinum þessa dagana Flugleiðum og nýju dótturfélagi þeirra Flugfélagi Íslands frekar óhagstæð. Og sem kunnugt er beitti Ólafur Ragnar sér á sínum tíma sérstaklega gegn því fyrirtæki og notaði þá ýmis meðul. Þeir sem vilja kynna sér hvernig sameiningartákn þjóðarinnar beitti sér gegn þessu eina af stærstu atvinnufyrirtækjum landsins geta t.d. fræðst um það í bókinni Í sviptivindum, sem m.a. fjallar um þetta mál. Hér má benda á bls. 273-301 í þeirri bók.