Fimmtudagur 19. júní 1997

170. tbl. 1. árg.

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar ágæta grein um…
Jón Sigurðsson forseta í Alþýðublaðið á 17. júní þar sem hann vekur athygli á skoðunum Jóns á hagmálum. Í greininni segir Jón um nafna sinn: „Jón Sigurðsson heimtaði alfrjálsa verslun og engar refjar. Á því máli hafði hann enga fyrirvara og féllst á engar undantekningar. Jóni var ljóst að fríverslun var ekki aðeins tæki til að bæta lífskjör þjóðarinnar heldur einnig tæki til að efla þéttbýlismyndunina í landi þar sem íhaldssamir landeigendur réðu lögum og lofum. Viðskiptamálin voru ekkert aukaatriði á dagskrá Jóns forseta; þau voru mál málanna í huga hans ásamt skólamálum, en þau voru í ólestri þá eins og nú. Hugmyndir Jóns Sigurðssonar um verslunarmálefni Íslands birtast í fyrstu stjórnmálaritgerðum hans. Þar eru þau sá meginás, sem allt snýst um frá upphafi til enda. Enda hafa verið leiddar að því líkur, að hugmyndin um frjáls milliríkjaviðskipti hafi verið það, sem fyrst vakti áhuga Jóns á stjórnmálum.“

Og síðar í greininni bætir hann við: „Um þjóðernissinnann og þjóðfrelsishetjuna eru höfð mörg hástemmd orð í lögboðnu námsefni handa börnum og unglingum, en um alþjóðasinnann og hagfrelsisforkólfinn er lítið sem ekkert sagt. Þess vegna er flestum núlifandi Íslendingum ókunnugt um afstöðu Jóns Sigurðssonar til efnahagsmála og frjálsra viðskipta.“