Laugardagur 14. júní 1997

165. tbl. 1. árg.

Skattar eru að margra áliti böl í sjálfu sér en ekki einungis vegna þess…
að skattfé er að öðru jöfnu varið óskynsamlega. Þó að skattfénu sé varið til þarfrar þjónustu verður hún minna skilvirk en ef fólk fengi að greiða fyrir þjónustuna beint. Hin gullna regla kaupsýslumannsins um að viðskiptavinurinn hafi ávallt rétt fyrir sér fellur úr gildi. Sigurður Már Jónsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, gagnrýndi íslenskt skólakerfi í pistli nýlega: „Það er auðvelt að kvarta við bifvélavirkjann eða tannlækninn og kaupa þjónustu þeirra annars staðar ef manni líkar ekki viðmót þeirra. Í skólakerfinu er þetta öðru vísi; kerfið er byggt upp þannig að hagsmunir kennarans séu tryggðir. Þannig fá foreldrar oft ákaflega litlu ráðið um það hverjir kenna börnum þeirra eða hvernig. Ef foreldrarnir hafa einhverja aðra skoðun eru þeir látnir skilja að þeir hafi rangt fyrir sér, komi þetta ekkert við og séu að trufla eðlilegt skólastarf.“

Lífeyrissjóður sjómanna og fjármálaráðherra hafa verið dæmdir…
til að greiða öldruðum sjómanni bætur vegna réttindaskerðingar sem hann varð fyrir með breytingu á reglum sjóðsins. Í dómnum er vísað til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Talsmenn sjóðsins hafa haldið því fram að með reglugerðarbreytingunni hafi einmitt verið stefnt að því að auka jafnræði með sjóðsfélögum. Það er áhugavert að forsvarsmenn lífeyriskerfisins skuli skyndilega vera orðnir talsmenn jafnréttis. Þeir hafa lengi dásamað þá millifærslu sem felst í kerfinu. Raunar kalla þeir millifærslurnar samtryggingu sem er fjarri sanni. Sá munur sem er á greiðslum manna til sjóðs og verðmætis réttinda á ekkert skylt við tryggingu. Um hreina og klára millifærslu er að ræða. Einhleypir og barnlausir greiða til dæmis sama iðgjald og fjölskyldufólk, þó að þeir öðlist ekki rétt til barna- eða makalífeyris. Ef um tryggingu er að ræða greiða menn iðgjald í hlutfalli við þá áhættu sem „tryggingafélagið“ tekur á sig. Þess vegna greiða ungir ökumenn til dæmis hærra iðgjald af bílatryggingum en þeir sem reyndari eru.