Föstudagur 13. júní 1997

164. tbl. 1. árg.

Með örri tækniþróun verður einkaréttur íslenska seðlabankans…
til peningaútgáfu á Íslandi sífellt hjákátlegri. Stór hluti viðskipta fer fram með greiðslukortum sem nálgast það æ meira að vera ígildi reiðufjár. Um nokkurt skeið hafa ekki verið reistar sérstakar hömlur við gjaldeyrisviðskiptum og verslunum er því ekkert til fyrirstöðu að taka við öðrum gjaldmiðlum en íslensku krónunni. Þetta gera raunar margar verslanir. Sú spurning hlýtur að vakna hvenær greiðslukortafyrirtæki fara að leita hagstæðustu tilboða seðlabanka til að ákveða hvaða gjaldmiðil þau eigi að styðjast við.

Sameiningarbrölt vinstri manna á Íslandi tekur á sig ýmsar…
kynlegar myndir. Fjölmiðlar eru óþreytandi að greina frá nýjustu fréttum af þessu merka máli og sumir þáttargerðarmenn, einkum á Ríkisútvarpinu, virðast álíta það helsta hlutverk sitt að halda umræðunni vakandi með viðtölum við hina ýmsu stjórnmálaspekinga af vinstri vængnum. Mikið er talað, talsvert fundað, en samt sem áður virðist lítið þokast í sameiningarátt. Áhuginn á sameiningu virðist líka mismikill, og oft á tíðum virðast forystumenn vinstri manna hafa meiri áhuga á því að „slá sér upp“ í fjölmiðlum með einhverjum yfirlýsingum, heldur en að ná raunverulegum árangri í sameiningarvinnunni. Dæmi um þetta eru skeytasendingar, sem gengið hafa í dagblöðum á milli þeirra Steingríms J. Sigfússonar og fyrrverandi flokksbróður hans, Einars Karls Haraldssonar. Dagur-Tíminn birtir þann 12. júní grein eftir Steingrím þar sem hann gagnrýnir „offors“ Einars Karls, Þjóðvakafólks og annarra krata í sameiningarumræðunni. Tekur Steingrímur svo djúpt í árinni að segja, að Þjóðvaki, og einnig Alþýðuflokkurinn, hafi með offorsi sínu og leikjum komist býsna nálægt því að klúðra tækifærinu til að þjappa íslenskum vinstri mönnum og félagshyggjufólki saman. Þetta er afar athyglisverð yfirlýsing, og sýnir kannski þann hug sem býr að baki fagurgalanum, sem einkennt hefur sameiningarumræðurnar.