Fimmtudagur 12. júní 1997

163. tbl. 1. árg.

Sveinbjörn Björnsson háskólarektor lýsti í seinni fréttum Sjónvarpsins…
á þriðjudag áhyggjum af því að atgervisflótti væri að bresta á meðal kennara í tilteknum greinum í Háskólanum. Hann nefndi þar sérstaklega tölvufræði, verkfræði, viðskiptafræði og læknisfræði. Sveinbjörn sagði að þau laun sem Háskólin gæti boðið þessu fólki væru allt of lág. Það er í sjálfur sér ekki nýtt að háskólarektor kvarti yfir of litlu fjárstreymi til Háskólans frá ríkinu og of lágum launum kennara. Hitt var merkilegra að hann sagði að Háskólinn þyrfti hugsanlega að laga sig að markaðsaðstæðum með því að greiða kennurum sem væru eftirsóttir á almennum markaði og erlendis hærri laun en öðrum. Eflaust myndi rektor ekki þora að láta slík ummæli frá sér fara nema út af því að hann lætur af því starfi nú í haust. Margir kennarar í Háskólanum hafa ekki að neinu öðru að hverfa – raunvirði vinnuframlags þeirra er ekki þekkt og þá dreymir að sjálfsögðu um að ásókn markaðarins í menn með allt aðra þekkingu og reynslu verði þeim til hagsbóta. Í afstöðu þeirra endurspeglast hvað margir ríkisstarfsmenn eiga við þegar þeir tala um markaðslaun. Þeir eru ekki að tala um þau laun sem þeir fengju á almennum markaði heldur hvað einhver annar sem er á svipuðum slóðum í launakerfi ríkisins fengi.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra virðist vera einlægur áhugamaður um…
að skattgreiðendur kosti byggingu tónlistarhúss. Nefnd sem hann skipaði hefur nú skilað áliti, þar sem hún kemst að því að „öll rök hnígi að því að reisa tónlistarhús á Íslandi“. Í sjálfu sér er ekkert að því að reist sé tónlistarhús. Fyrst það er svona skynsamlegt hljóta mjög margir einkaaðilar að vera tilbúnir til að fjármagna byggingu þess. En það er hins vegar algerlega óþolandi að áhugamenn um hin ýmsu „þjóðþrifamál“ troði með þessum hætti áhugamálum sínum upp á annað fólk og neyði það til að standa straum af kostnaðinum. Formaður nefndar menntamálaráðherra sagði að kostnaður við byggingu hússins yrði aldrei minni en 1500 milljónir króna. Það verður fróðlegt að heyra hvað ungir sjálfstæðismenn hafa um þetta mál að segja. Eins og kunnugt er fögnuðu þeir 3. júní skattfrelsisdeginum, þ.e. þeim degi ársins sem landsmenn hætta að vinna fyrir hið opinbera og fara að vinna fyrir sjálfa sig. Áform menntamálaráðherra svara til þess að landsmenn eyði a.m.k. einum og hálfum degi aukalega til að þjóna duttlungum sérhagsmunahópa.