Laugardagur 7. júní 1997

158. tbl. 1. árg.

Soffía Kristín Þórðardóttir ritaði grein í Morgunblaðið…
í fyrradag þar sem hún fjallar um álögur á bifreiðareigendur. Í greininni segir Soffía m.a.: „Standist röksemdin um að sérstakar álögur séu á bíla vegna kostnaðarins sem þeir valda ætti vegagerð í ár að kosta um 14 milljarða króna, en svo er alls ekki. Vegargerð í ár, þar með taldar nýframkvæmdir, viðhald, þjónusta o.s.frv. kostar „ekki nema“ 6.406 milljónir króna. Þetta þýðir að ríkið hyggst í ár skattleggja bílanotendur sérstaklega um tæpa átta milljarða króna, eða sem svarar um það bil 60.000 krónum á hvern bíl umfram það sem þarf til að standa straum af kostnaði vegna notkunar bílsins. Það þarf því vart að undra að stundum hvarfli að mönnum að það sé ekki aðeins ölvunar- eða hraðakstur, heldur allur akstur, sem er refsiverður, fyrst segja má að allir ökumenn séu í raun sektaðir um stórar fjárhæðir á hverju ári.“

Í fyrradag var líka spurt um það í dálkinum Með og á móti í DV…
hvort skattar væru of háir. Til svara voru Birgir Ármannsson, frá skattahópi Heimdallar og Róbert Marshall, formaður Hverfandi (en félagið á að leggja niður við fyrsta hentug leik eins og öll hin félögin á vinstri vængnum sem stofnuð hafa verið vegna „sameiningarinnar“). Af einhverjum ástæðum svaraði Róbert Marshall ekki spurningunni og benti ekki á nein rök í þá veru að skattar væru ekki of háir heldur fáraðist eingöngu yfir því að Heimdallur hefði boðið upp á skuldasúpu, gefið þingmönnum strokleður til að þurrka fjárlagahallann út, sýnt vegfarendum hraðavaxandi skuldir ríkisins með skuldaklukku og minnt á skattadaginn.