Föstudagur 9. maí 1997

129. tbl. 1. árg.

Það mætti halda að Kennarasamband Íslands álíti að það…
sé rekið með frjálsum framlögum einstakra kennara. Að minnsta kosti tók það upp á því á dögunum að gefa 2.000.000 króna í verkfallssjóð verkalýðsleiðtoga á Vestfjörðum! Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta að tekinn sé með valdi hluti af launum kennara og sendur vestur á firði til að lengja þar verkfall alls óskyldra verkalýðsfélaga? Þetta minnir á þá ósvinnu þegar verkamannafélagið Dagsbrún lagði sömu upphæð til að lengja verkfall sjúkraliða fyrir tveimur árum. Svo virðist sem forstjórar verkalýðsfélaganna lifi helst fyrir verkföll og átök og telji sér heimilt að nota fé, sem þeir taka af því fólki sem neytt er í félög þeirra, til að sinna þessari áráttu sinni. Spyrja má af hverju slíkir menn fá þessari þörf sinni ekki svalað annars staðar. Franska útlendingahersveitin tæki eflaust við svo bardagafúsu fólki svo dæmi sé tekið.