Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur þótt fádæma máttlaus…
í vetur. Gamlar kempur í röðum stjórnarandstæðinga hafa ekki verið svipur hjá sjón. Það var ekki fyrr en dótið (stjórnarsæti í Landsvirkjun) var rifið af Svavari Gestssyni að hann fór að skæla og berja frá sér. Þá virðist allt loft úr Hjörleifi Guttormssyni nema helst gróðurhúsaloft. Aðrir stjórnarandstæðingar virðast uppteknir af ,,sameiningarmálunum“ og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa jafnvel ekki rænu á að halda úti sómasamlegum heimasíðum. Stjórnarflokkarnir eru hins vegar sprækir á Vefnum og nú hefur Geir H. Haarde hafið ritun reglulegra pistla um þingmálin á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins.
Við viljum…
M&M’s sælgæti.
Háskólarektor sá sérstaka ástæðu til þess í kvöldfréttum í gær…
að gera athugasemd um að starfsmenn Háskólans yrðu gæta þess að almenningur héldi ekki að starfsmennirnir væru að viðra skoðanir Háskólans þegar þeir opinberuðu skýrslur sínar. Eins taldi rektor rétt að fram kæmi hver greiddi fyrir skýrslugerðina. Það vekur athygli af hvaða tilefni rektor ákveður að opna munninn um þetta mál, en það var að tveir kennarar við hagfræðiskor og kunnir andstæðingar veiðigjalds, þeir Birgir Þór Runólfsson og Ragnar Árnason, voru að senda frá sér skýrslu um veiðigjaldið, eða auðlindaskattinn eins og réttara væri að nefna það. Það er hins vegar ekki síður athyglisvert hvenær rektor hefur kosið að þegja um þessa skoðun sína, því þetta er jú ekki í fyrsta skipti sem starfsmenn Háskólans láta eitthvað frá sér fara um umdeild mál. Þannig hefur forstöðumaður Hagfræðistofnunar háskólans, Tryggvi Þór Herbertsson, ítrekað viðrað ýmis sjónarmið í fjölmiðlum án þess að rektor hafi séð ástæðu til að setja ofan í við hann opinberlega. Eitt dæmi er viðtal við hann í DV 2. desember 1996 þar sem hann túlkar niðurstöður rannsókna sinna á hluta menntunar í hagvexti með þeim vægast sagt undarlega hætti að endalaust megi ausa fé til menntamála og auka með því hagvöxt. Hann virðist gera ráð fyrir því að ekki sé unnt að sóa fé í menntastofnunum, að öll menntun sé jafn arðbær og að ofmenntun sé útilokuð. Hann segir beinlínis ,,auðvelt reikningsdæmi” að það borgi sig að reka ríkissjóð með halla og setja peningana í menntun. Það skyldi þó ekki vera að sérhagsmunagæslan beri sannleiksleitina og vísindaandann stundum ofurliði í Háskóla Íslands.